Lífið

Frægir fundu ástina 2023

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ástin blómstraði á árinu.
Ástin blómstraði á árinu.

Það er ekkert betra en að finna ástina. Út á það gengur lífsins hamingja hjá ansi mörgum þó sumum finnist fínt að vera einir.

Vísir var duglegur að greina frá því á árinu sem er að líða þegar frægir fundu ástina. Frægðarmenni, allt frá listamönnum til viðskiptajöfra, hlutu náð fyrir augum ástarguðsins Amors á árinu sem er að líða, í hið minnsta um stund.

Janúar

Vinsælasti útvarpsmaður landsins, Sigurður Þorri Gunnarsson, betur þekktur sem Siggi Gunnars, átti líklega besta ár lífs síns og byrjaði með Sigmari Inga Sigurgeirssyni í upphafi ársins.

Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marel átti eftir að eiga stormasamt ár. Hann hóf árið þó á jákvæðu nótunum með Kristrúnu Auði Viðarsdóttur, fjárfestingarstjóra hjá Íslandssjóðum á Tenerife um áramótin.

Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, fann ástina í upphafi ársins. Sú heppna var listakonan Sísí Ingólfsdóttir. Hann bætti svo um betur, fór á skeljarnar í júní og giftist Sísí í nóvember. Geri aðrir betur.

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, greindi frá því í janúar að hann hefði fundið ástina að nýju hjá Hrund Gunnsteinsdóttur. Hann sagði það ekki hafa verið á dagskrá í einlægu viðtali.

Febrúar

Vísir greindi frá því í febrúar að handboltagoðsögnin Dagur Sigurðsson væri komin á fast með Ingunni Sigurpálsdóttur, markaðsfulltrúa Bpo.

Mars

Þekktasti brimbrettakappi landsins, Heiðar Logi Elíasson og kvikmyndagerðarkonan Anný Björk Arnardóttir byrjuðu saman í mars og tilkynntu allt saman á Instagram.

Almannatengillinn og fyrrverandi fréttakonan Hödd Vilhjálmsdóttir og útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson, betur þekktur sem Andri á Flandri byrjuðu saman. Fjölmiðlar slógu því upp að um nýtt ofurpar væri að ræða.

Tvennum sögum fór af því hvort Kristján Einar Sigurbjörnssön, betur þekktur sem Kleini, og einkaþjálfarinn Hafdís Björg Kristjánsdóttir væru í raun nýtt par þegar fréttir voru fluttar af því í mars. Síðar varð það rækilega staðfest en Kleini hefur meðal annars gefið Hafdísi Swarovski hálsmeni og Porsche jeppa.

Apríl

Athafnamaðurinn Egill Fannar Halldórsson og fegurðardrottningin Íris Freyja Salguero skelltu sér saman til Rómar í apríl. Greinilegt að parið deilir mikilli ástríðu fyrir ferðalögum. Hún sagði Vísi í einlægu viðtali að það hefði hrætt sig hvað hún var hrifin af Agli.

Fjölmiðla og fegurðardísin Hugrún Halldórsdóttir fann ástina í örmum Vals Hrafns Einarssonar, tæknistjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Stokks Software og greindi Vísir frá því í apríl. Þau störfuðu lengi saman á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis.

Rúrik Gíslason, fyrirsæta, knattspyrnumaður og líklega eftirsóttasti piparsveinn landsins á þeim tíma, gekk út í apríl. Sóley Birna Horcajada Guðmundsdóttir, fyrirsæta, hreppti kappann.

Hlaðvarpsstjórnandinn Sölvi Tryggvason fann ástina í örmum afrísku fegurðardísarinnar Estherar Kaliassa. Þau ferðuðust meðal annars um landið á árinu og nutu lífsins.

Plötusnúðarnir Karen Grétars og Margeir Ingólfsson, sem oftast er þekktur sem DJ Margeir, byrjuðu saman á árinu og greindi Vísir frá því í apríl.

Skemmtilegasta par landsins varð mögulega til á árinu en uppistandarinn Ari Eldjárn og Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi Hrím, byrjuðu saman.

Maí

Frá því var greint í maí að útvarpsmaðurinn með meiru, Tómas Steindórsson og sunddrottningin Hrafnhildur Lúthersdóttir væru að rugla saman reitum.

Júní

Benedikt Brynleifsson, trommari, og Eva Brink, starfsmaður fjármáladeildar Air Atlanta Icelandic, virtust hafa gengið út í júní og birtu mynd af sér saman á Instagram. Þau eiga von á barni árið 2024.

Kristín Eysteinsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og Signý Scheving, aðstoðaryfirljósmóðir á Landspítalanum, skelltu sér saman til Rómar í júní. „Dásemdar Rómarferð með konu lífs míns,“ sagði Signý á miðlunum.

Tón­list­armaður­inn Gunn­ar Lár­us Hjálm­ars­son, eða Dr. Gunni eins og hann er ávallt kallaður, og myndlistarkonan Helena Hans­dótt­ir Asp­e­lund urðu nýtt par í júní. Þau skelltu sér saman til Brussel í Belgíu.

Líklega fréttust stærstu tíðindi af ástarmálum ársins þegar poppgoðsögnin Páll Óskar Hjálmtýsson sagðist í einlægu viðtali við Vísi vera genginn út. Hann sagðist vera hamingjusamasti hommi í heimi og sagði síðar á árinu frá því að hinn heppni væri flóttamaður frá Venesúela og að þeir væru trúlofaðir.

Leikarinn Hilmir Snær Guðnason var sannspár þegar hann sagðist í einlægu viðtali við Vísi á árinu ekki kunna að vera einhleypur. Í lok júní var greint frá því að Vala Kristín Eiríksdóttir, leikkona og Hilmir Snær væru að hittast.

Júlí

Samfélagsmiðlastjarnan, leikkonan og flugfreyjan Kristín Pétursdóttir nældi sér í handboltadómarann Þorvar Bjarma Harðarson. Þau nutu sólarinnar saman á höfuðborgarsvæðinu í júlí. Þá hafði parið verið saman um nokkurn tíma.

Liðsmenn Of Monsters and Men þau Nanna Bryndís Hilmarsdóttir og Ragnar Þórhallsson, byrjuðu líklegast ekki saman á árinu en Vísir greindi hins vegar frá því í júlí að þau hefðu verið par í nokkurn tíma án þess að láta mikið á því bera.

Hulunni var svipt af stjörnupari í lok júlí þegar Vísir greindi frá því að Inga Tinna Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastýra Dineout og Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og einkaþjálfari væru nýtt par. Í september birtu þau fyrstu paramyndirnar af sér saman.

Ágúst

Fegurðardrottningin og lífstílsþjálfinn Linda Pétursdóttir fann ástina á Spáni í ágúst. Þar var á ferðinni fjallmyndarlegur Spánverji að nafni Jamie og var Linda dugleg að birta myndir af þeim saman á Instagram. Hún hefur sagt að hún hafi aldrei verið svona hrifin.

Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson og læknirinn Anna María Hákonardóttir urðu nýtt par í sumar. Um var að ræða stutta sumarást þar sem þau fögnuðu meðal annars stórafmæli lögmannsins á Tenerife.

September

Vonarstjarna Pírata, Lenya Rún Taha Karim og fyndnasti maður Twitter, Sigurjón Guðjónsson, betur þekktur sem Siffi G, rugluðu saman reitum í sumar. Þau opinberuðu svo sambandið í september.

Aníta Briem og Hafþór Waldorff nutu lífsins saman á Kaffi Vest í september. Vísir greindi frá því að þau hefðu verið að slá sér upp mánuðina á undan.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta, fann ástina í faðmi athafnamannsins Þórðar Daníels Þórðarsonar. Hún sagði í samtali við Vísi að sambandið væri algjör ástarbomba. Áður hafði hún rætt lífið í Einhleypunni á Vísi í ágúst, sem virkaði jú svona líka vel. 

Október

Vísir greindi frá því í október að Sigríður Thorlacius, söngkona og Anton Björn Markússon, lögmaður hefðu verið saman um nokkurt skeið. Þau fögnuðu ástinni þegar systir Sigríðar, Ásdís Thorlacius Óladóttir og Ingvar Eysteinsson giftu sig.

Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, kynntist dularfullri draumadís vestanhafs þar sem hann býr í Los Angeles. Hann sagði fátt í samtali við Vísi en sú heppna heitir Cassandra og er ekki virk á samfélagsmiðlum.

Heilsuræktardrottningin og einkaþjálfarinn Guðríður Torfadóttir, betur þekkt sem Gurrý og Sturla Ómarsson, flugstjóri hjá Icelandair hófu að stinga saman nefjum. Vísir greindi frá því í október að parið hefði víða sést saman, meðal annars á Októberfest í Reykjanesbæ.

Nóvember

Berglind Häsler, eigandi Havarí og tónlistarkona fann ástina á ný á árinu. Hún sagðist hafa fundið ástina hjá gömlum og góðum vini úr tónlistarbransanum. Svavar Pétur Eysteinsson eiginmaður Berglindar, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, féll frá í september í fyrra eftir tæplega eftir tæplega fjögurra ára baráttu við krabbamein.

Idol stjarnan og útvarpsmaðurinn Guðjón Smári Smárason, byrjaði með sálfræðinemanum Guðfinnu Margréti Örnólfsdóttur á árinu. Parið byrjaði saman opinberlega síðari hluta ársins eftir að hafa verið að stinga saman nefjum í nokkurn tíma.

Ástin blómstrar í Framsókn en Vísir greindi frá því í nóvember að Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og Jóhann H. Sigurðsson, skrifstofustjóri Framsóknar og sonur Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra og formanns Framsóknar, væru að stinga saman nefjum. Það fór víst ekki fram hjá Framsóknarfólki á miðstjórnarfundi flokksins í Vík í Mýrdal í nóvember.

Ástin sveif yfir vötnum í Kaupmannahöfn í lok nóvember þar sem Guðrún Ragna Hreinsdóttir, gæðastjóri Háskólans í Reykjavík og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gerðu vel við sig í mat og drykk.

Desember

Eva Björg Sigurðardóttir og Gunnar Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Kviku Securities Ltd. í London urðu eitt nýjasta par landsins í desember.

Markaðs- og viðburðarstjórinn Ásthildur Bára Jensdóttir fann ástina í örmum listakonunnar og fyrirsætunnar Sóldaggar Maríu Maggýjardóttur Mýrdal. Parið ruglaði saman reitum fyrr í vetur og skelltu sér til New York undir lok ársins.

Útvarpskonan hressa Vala Eiríksdóttir og tónlistarmaðurinn Óskar Logi Ágústsson úr Vintage Caravan fundu hvort annað í lok árs. Líklega er þar á ferðinni hressasta par landsins.

Brynjar Barkason, meðlimur ClubDub og Helga Þóra Bjarnadóttir hafa sést víða saman undanfarnar vikur. Þau mættu meðal annars saman í afmæli Gústa B í byrjun desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.