Lífið

Frægir fjölguðu sér árið 2023

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Það var svo sannarlega barnalán hjá fræga fólkinu á árinu 2023.
Það var svo sannarlega barnalán hjá fræga fólkinu á árinu 2023.

Það er ávallt mikið gleðiefni þegar börn koma í heiminn. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli þjóðþekktra landsmanna sem komu í heiminn á árinu 2023 og Vísir greindi frá.

Ef Instagram-færslurnar birtast á ekki þá er ráð að endurhlaða (e. refresh) síðunni.

Janúar

Leikaraparið Arnmundur Ernst Backman og Ellen Margrét Bæhrenz eignuðust dreng þann 12. janúar og er annað barn foreldra sinna. Fyrir eiga þau hinn fimm ára gamla Krumma. 

Drengurinn fékk nafnið Halldór Hólmar Bæhrenz Backman sem er í höfuðið á ömmu minni Halldóru og afa hans Adda Halldóri. „Amma mín hefur alla tíð verið kölluð Lóa og því köllum við drenginn Lói,“ skrifaði Ellen við færsluna um nafngiftina.

Hraðfréttamaðurinn Benedikt Valsson og dansarinn Heiða Björk Ingimarsdóttir eignuðust dóttur föstudaginn 13. janúar. Stúlkan er þeirra annað barn en fyrir eiga þau soninn Elmar Inga, tveggja ára.

Fegurðardrottningin Hulda Vigdísardóttir og kærasti hennar, Birgir Örn Sigurjónsson, eignuðust dreng 30. janúar.

„Besta afmælisgjöf fyrr og síðar,“ skrifaði Hulda í færslu sem hún birti á Instagram en drengurinn kom í heiminn nóttina eftir afmælisdag Huldu.

Febrúar

Dansarinn Ástrós Traustadóttir og kærastinn hennar, frumkvöðullinn Adam Karl Helgason eignuðust stúlku 4. febrúar. Stúlkan er fyrsta barn Ástrósar en fyrir á Adam eina dóttur. Stúlkunni var gefið nafn 2. apríl og heitir hún Nóra Náð.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og eiginmaður hennar, Einar B. Ingvarsson, eignuðust dóttur í byrjun febrúar. Þetta er þeirra annað barn en fyrir eiga þau dóttur sem fæddist árið 2019. Dótturinni var gefið nafnið Ragnhildur Steinunn í höfuðið á ömmum sínum.

Knattspyrnu- og tónlistarmaðurinn Guðmundur Þórarinsson og kærasta hans, Guðbjörg Ósk Einarsdóttir, eignuðust stúlku 24. febrúar. Dóttirinin er fyrsta barn parsins. 

Guðmundur og Guðbjörg búa á eyjunni Krít í Grikklandi þar sem hann spilar fótbolta með OFI Crete í efstu deild gríska fótboltans.

Mars

Listaparið Saga Sigurðardóttir og Vilhelm Anton Jónsson, þekktur sem Villi naglbítur, eignuðust dreng 10. mars. Drengurinn er fyrsta barn Sögu en þriðji sonur Villa. Stráknum hefur verið gefið nafnið Hringur Kári.

„Finnst ég vera ríkasta kona í heimi með fallegustu mennina mína fjóra,“ skrifaði Saga við færslu með mynd af hvítvoðungnum á Instagram.

Apríl

Hjónin Ingileif Friðriksdóttir, sjónvarps- og fjölmiðlakona, og María Rut Kristinsdóttir, kynningarstýra UN Women, eignuðust stúlku 3. apríl.

Alla meðgönguna var stúlkan kölluð Plóma en var svo gefið nafnið Hrafndís við hátíðlega athöfn þann 18. maí á afmælisdegi Ingileifar.

Tónlistarmaðurinn Aron Can Gultekin og kærastan hans, Erna María Björnsdóttir, eignuðust dreng 3. apríl. Drengnum hefur verið gefið nafnið Theo Can.

Maí

Ró­bert Wessman, fjár­fest­ir og for­stjóri Alvotech, og Ksenia Shak­hmanova eiginkona hans eignuðust dóttur 3. maí. Stúlkan er annað barn þeirra saman, fyrir eiga þau soninn Robert Ace fjögurra ára.

„Stúlka í þetta skiptið. Fallega dóttir okkar Vivien Roberta Wessman fæddist að morgni 3. maí 2023. Ég og Ksenia erum svo óendanlega þakklát að fá hana inn í líf okkar. Hún er birtingarmynd af ást okkar til hvors annars, og hlökkum við til að deila lífinu og hamingjunni með henni,“ skrifaði Róbert.

Fyrir eiga þau tvö börn hvor úr fyrri samböndum.

Tónlistarkonan og Idol-stjarnan Saga Matthildur Árnadóttir og Sigurður Rúnar Reynisson kærasti hennar eignuðust dreng 19. maí.

Saga komst að því að hún væri barnshafandi þegar millistig keppninnar fór fram í Salnum í Kópavogi í fyrra og þurfti að læra að beita annarri tækni þegar lengra leið á meðgönguna.

Júní

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og Jón Skaftason, stjórnarformaður Sýnar, eignuðust stúlku laugardagskvöldið 10. júní.

Hildur greindi frá fréttunum á Facebook. Þar segir að stúlkan hafi verið heilar sautján merkur að þyngd og 55 sentímetrar að lengd. Biðin eftir stúlkunni hefur verið löng en Hildur var kominn á 41. viku meðgöngunnar þegar hún kom loksins. Sjálf átti Hildur afmæli degi síðar. Óhætt er að segja að hún hafi fengið góða afmælisgjöf þetta árið.

Fyrir eiga hjónin tvær dætur saman og Hildur á son úr fyrra sambandi.

Nadine Guðrúnar Yaghi samskiptastjóri Play og Snorri Másson fjölmiðlamaður eignuðust dreng 3. júní. Drengurinn er fyrsta barn Snorra en fyrir átti Nadine son úr fyrra sambandi, Theodór fimm ára. 

Drengnum var gefið nafnið Már við hátíðlega athöfn í júlí.

Júlí

Leik og söngkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Hallgrímur Jón Hallgrímsson, trommuleikari Sólstafa eignuðust sitt annað barn þann 5. júlí. Fyrir eiga þau soninn Stíg, þriggja ára. 

Frosti Logason fjölmiðlamaður og Helga Gabríela Sigurðardóttur, matreiðslumaður eignuðust stúlku þann 10. júlí. Stúlkunni var gefið nafnið Birta í höfuðið á systur Helgu. Dóttirin er  þriðja barn þeirra hjóna en fyrir eiga þau tvo drengi.

„Lífið sem verður alltaf stærra og fallegra. Við fjölskyldan erum hreinlega að springa úr þakklæti. Birta Frostadóttir kom í heiminn á Landspítalanum í morgun og öllum heilsast vel. Ást og hamingja í sjöunda himni,“ skrifaði Frosti við myndfærslu af fæðingardeildinni.

Vinirnir Þórdís Imsland og Sigurjón Örn Böðvarsson eignuðust stúlku þann 4. júlí. Stúlkunni var gefið nafnið Stella Katrín. Fyrir eiga þau Óðinn Örn, þriggja ára.

„Elsku stelpan okkar mætti í heiminn 4. júlí. Við áttum drauma fæðingu í Björkinni umvafin yndislegum ljósmæðrum sem við erum endalaust þakklát fyrir. Óðinn var mjög spenntur að sjá litlu systur daginn eftir og var hann tilbúinn að gefa henni snuðið sitt sem er honum afar kært og einnig slatta af grjóti sem hann týndi hér og þar á Kársnesinu.

Við erum yfir okkur ástfangin af þessari litlu stúlku sem við hlökkum til að kynnast betur,“ skrifaði Þórdís og birti fallega mynd af dótturinni. 

Það sem er óvenjulegt við þeirra barneignir er að þau hafa aldrei verið í nokkurs konar ástarsambandi, heldur hafa þau aðeins verið góðir vinir og bæði dreymdi þau um að eignast barn.

Ágúst

Bardagakappinn Gunnar Nelson og sambýliskona hans, Fransiska Björk Hinriksdóttir eignuðust stúlku 13. ágúst. Barnið er seinni dóttir þeirra saman en Gunnar á son úr fyrra sambandi.

Margrét Lára Viðarsdóttir, sálfræðingur, knattspyrnusérfræðingur og fyrrverandi landsliðskona og Einar Örn Guðmundsson, sjúkraþjálfari og fyrrverandi handboltamaður eignuðust dóttur þann 26. ágúst.

Stúlkan er þeirra fjórða barn en fyrir eiga þau þrjá drengi. 

Jakob Birgisson, skemmtikraftur og handritshöfundur, og Sólveig Einarsdóttir eiginkona hans eignuðust stúlku 26. ágúst. Stúlkan hefur verið nefnd Sigríður og er annað barn þeirra hjóna. Fyrir eiga þau stúlku fædda 2020.

Jakob og Sólveig gengu í hjónaband í júlí í fyrra eftir að hafa trúlofað sig tveimur árum áður á Þingvöllum.

September

Handboltakappinn Bjarki Már Elísson og kærasta hans, Unnur Ósk Steinþórsdóttir eignuðust stúlku 14. september, sem hefur verið nefnd Milla.

Stúlkan kom í heiminn í Vesprém í Ungverjaland þar sem fjölskyldan er búsett. Bjarki spilar með ungverska stórliðinu Telekom Veszprém. Milla er annað barn þeirra hjóna en fyrir eiga þau Valgerði Elsu, átta ára.

Október

Fimleikadrottningin Kolbrún Þöll Þorradóttir og Ísak Óli Helgason eignuðust stúlku 17. október. Stúlkan heitir Aþena Eik og er fyrsta barn parsins.

Nóvember

Áhrifavaldurinn og fegurðardísin Tinna Alavis eignaðist dreng í byrjun nóvember. Fyrir á hún dótturina Ísabellu Birtu með Húsafellserfingjanum Unnari Bergþórssyni.

„Elsku fallegi strákurinn okkar er kominn í heiminn. Ég er yfir mig ástfangin af honum,“ skrifaði Tinna og birti fallega mynd af syninum.

Tónlistarmaðurinn Birnir Sigurðarson og kærasta hans Vaka Njálsdóttir eignuðust frumburð sinn 2. nóvember. Dótturinni var gefið nafnið Gróa.

„Þrjár vikur síðan ég fékk hana í fangið. Hjartað springur af ást,“ skrifaði Vaka við fallega mynd af þeim mæðgum. Stúlkan lét foreldra sína heldur betur bíða eftir sér og mætti í heiminn tólf dögum eftir settan dag.

Leikarinn Sigurður Þór Óskarsson, eða Siggi Þór eins og hann er kallaður, og unnusta hans Sonja Jónsdóttir vefhönnuður eignuðust dreng 14. nóvember.

Parið hefur verið saman í nokkur ár og trúlofuðu þau sig árið 2020 í miðjum heimsfaraldri.

Aðsend

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Garðar Gunnlaugsson og Fanney Sandra Albertsdóttir, fegurðardrottning, flugfreyja og förðunarfræðingur, eignuðust dreng 21. nóvember. Drengurinn er þeirra annað barn saman. Garðar á fjögur börn fyrir.

„Litli gullfallegi drengurinn okkar kom í heiminn kl. 22:29 í gær. 14 merkur, 51 cm og fullkominn í alla staði,“ skrifaði parið í sameiginlegri færslu og deildi mynd af syni þeirra.

Kjartan Henry Finnbogason, knattspyrnumaður og sérfræðingur hjá Stöð 2 Sport, og Helga Björnsdóttir lögfræðingur eignuðust sitt þriðja barn 29. nóvember. Fyrir eiga hjónin tvö börn, stúlku og dreng.

Desember

Handbolta- og landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson og Sóldís Eva Gylfadóttir styrktarþjálfari eignuðust frumburð sinn 5. desember. 

„Elliðadóttir mætti í heiminn þann 5.12.2023. Við gætum ekki verið ánægðari þessa fullkomnu draumadís,“ skrifaði parið og deildi myndum af stúlkunni.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðsframherji og leikmaður franska úrvalsdeildarliðsins PSG, og Kristján Sigurðsson slökkviliðsmaður eignuðust dreng 8. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.