„Þeir refsuðu okkur mikið í seinni bylgjunni. Það var klaufaskapur í fyrri hálfleik að fá svona margar tveggja mínútna brottvísanir og þá gekk Valur á lagið,“ sagði Þorsteinn Leó í samtali við Vísi eftir leik.
Þorsteinn var svekktur með síðari hálfleikinn þar sem honum fannst liðið vera að tapa allt of mörgum boltum.
„Þetta var klaufaskapur og við vorum með of marga tapaða bolta. Þetta var asnalegur sóknarleikur hjá okkur og leikurinn fór í vaskinn.“
Þegar að tæplega hálf mínúta var eftir tók Valur leikhlé fimm mörkum yfir. Mörgum fannst þetta afar sérstakt en Þorsteinn kippti sér ekki upp við þetta.
„Þetta böggaði mig ekkert. Hann [Anton Rúnarsson] gerði mistök og viðurkenndi það eftir leikinn. Þetta var alveg óviljandi hjá honum.“
Afturelding var að ljúka sínum síðasta leik fyrir áramót. Að mati Þorsteins á liðið mikið inni og liðið þarf að gera betur.
„Mér finnst við eiga mikið inni sóknarlega en varnarlega er þetta að koma. Mér finnst við samt þurfa að bæta varnarleikinn líka. Við þurfum að hlaupa betur til baka og það vantar alveg þriðju bylgjuna. Við verðum miklu betri eftir áramót.“
Þorsteinn Leó var valinn í tuttugu manna æfingahóp fyrir Evrópumótið í Þýskalandi sem fram fer í næsta mánuði.
„Það var heiður að vera valinn í tuttugu manna hópinn og ég reyni allt sem ég get til að komast út.“
En hvernig metur Þorsteinn möguleikann á að vera í 18 manna hópnum sem fer til Þýskalands?
„Það er góður möguleiki held ég,“ sagði Þorsteinn Leó að lokum.