Sport

Ó­ljóst hvort Joshua og Wilder muni nokkurn tímann mætast

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Deontay Wilder og Anthony Joshua hafa verið meðal fremstu boxara heims um áraraðir og staðið í ströngum orðaskiptum en aldrei mæst í hringnum. Eftir úrslit kvöldsins er óljóst hvort það muni nokkurn tímann gerast.
Deontay Wilder og Anthony Joshua hafa verið meðal fremstu boxara heims um áraraðir og staðið í ströngum orðaskiptum en aldrei mæst í hringnum. Eftir úrslit kvöldsins er óljóst hvort það muni nokkurn tímann gerast.

Langþráð bið eftir bardaga milli þungavigtarboxaranna Anthony Joshua og Deontay Wilder lengist enn eftir að sá síðarnefndi tapaði óvænt bardaga sínum gegn Joseph Parker. Samningar voru í hús um tvo bardaga milli Joshua og Wilder á næsta ári, að því gefnu að þeir ynnu báðir sína bardaga í gær.

Anthony Joshua fór létt með bardaga sinn gegn Otto Wallin, fleygði höggunum frá sér af krafti og varðist allri andspyrnu af mikilli snilld. Þjálfarateymi Wallin henti inn handklæðinu rétt áður en 5. lotan kláraðist. 

Flestir bjuggust við sigri Deontay Wilder í bardaganum sem fór fram fyrr um kvöldið en Nýsjálendingurinn Joseph Parker hlaut einróma sigur meðal dómara; 118-111, 118-110  og 120-108. 

Wilder hefur lítið barist undanfarin tvö ár og er orðinn 38 ára gamall. Það sást strax frá upphafi að Wilder væri var um sig og örlítið ryðgaður.

Mótshaldarar í Riyadh, Sádí-Arabíu, höfðu þegar skipulagt endurfundi Wilder og Joshua árið 2024 en tap Wilder stillir þeim ekki saman. Búist var við því að bardaginn yrði tilkynntur í lok kvölds en óljóst er nú hvort þessir knáu boxarar muni mætast í hringnum. 

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×