Gistináttaskattur hefur verið endurvakinn eftir dvala í Covid-faraldrinum. Nú er hann með breyttu sniði; er bæði víðtækari og hærri. Nú leggst þessi skattur einnig á rekstraraðila skemmtiferðaskipa þegar skipin dvelja innan tollsvæðis Íslands. Þessi skattur er upp á þúsund krónur hver nótt.
Umræður um útfærslu innheimtunnar hafa skapast í Facebook hópnum Bakland ferðaþjónustunnar þar sem margri klóra sér í kollinum. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segist hafa búist við endurkomu gistináttaskattsins en ekki breytinganna sem urðu á honum.
„Stóra vandamálið er að hann er hækkaður um 100% með nánast engum fyrirvara og þar sem ferðaþjónustan er verðlögð langt fram í tímann og mikið af sölunni fyrir 2024 hefur þegar átt sér stað þá er greinin í svolitlum vandræðum með þessa aukahækkun og hvernig eigi að fá ferðamenn til að borga hana.“

Gestir sem dvelja fram yfir áramót þurfa að borga skattinn.
„Það virðist vera tilhneigingin hjá flestum að þetta verði bara þannig að gestirnir greiði sjálfir þennan skatt þegar þeir innrita sig á hótel. Ferðaskrifstofurnar sem hafa verið að selja þessar ferðir, eins og ég sagði, langt fram í tímann, þær eiga mjög erfitt með að innheimta þetta frá sínum söluaðilum erlendis þannig að mér sýnist svona tilhneigingin vera í þá átt að gestirnir verði rukkaðir hérna á staðnum um þennan gistináttaskatt, sem mun örugglega valda einhverjum vandkvæðum þar sem fólk vissi ekki af þessu þegar það bókaði.“
En hvað með Airbnb gistinguna?
„Þetta á við um alla sem eru með svokallað rekstrarleyfi sama hvort það er Airbnb íbúðir eða hótel og gistiheimili en þeir sem eru í þessari svokallaðri níutíu daga reglu þeir eru undanþegnir greiðslu á gistináttaskatti,“ segir Bjarnheiður.