Lífið

Ó­mót­stæði­leg eftirréttabomba sem bráðnar í munni

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Guðrún Ýr deilir fjölda ljúffengra uppskrifta á vefsíðu sinni Döðlur og smjör.
Guðrún Ýr deilir fjölda ljúffengra uppskrifta á vefsíðu sinni Döðlur og smjör.

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari deildi gómsætri uppskrift að ómótstæðilegu tiramisú með mildu karamellubragði fyrir áramótaveisluna á vefsíðunni Döðlur og smjör. 

Uppskriftin er fljótleg og einföld, og ætti að hitta í mark hjá flestum. Uppskriftin er ætluð fyrir fjóra til sex gesti.

„Tiramisú er dásamlegur eftirréttur sem er léttur og sætur, fullkomin eftir þunga máltíð en manni langar í smá sætt. Ég ákvað að ögra smá klassísku tiramisú og prófa að breyta því svolítið og bæta við það karamellusósu og Doré karamellusúkkulaði og útkoman er dásamleg,“ segir Guðrún Ýr.

Tiramísú er ljúffengur og einfaldur eftirréttur.Guðrún Ýr

Guðrún bleytti kökurnar með kaffi líkt og í hefðbundinni tiramísú uppskrift ásamt því að sáldra kakói yfir í lokin. Til að gera réttinn barnvænlegan má skipta kaffinu út fyrir mjólk. 


Innihaldsefni

  • 100 ml sterkt kaffi
  • Tvö egg
  • 80 g sykur
  • 250 ml rjómi
  • 100 g Doré karamellusúkkulaði frá Nóa Siríus
  • 200 g mascarpone ostur
  • 24 stk Lady fingers. Einn pakki.
  • Karamellusósa, keypt eða uppskrift hér fyrir neðan
  • 2-3 msk kakó

Aðferð

Gott er að leyfa hráefnum eins og eggjum, rjóma og mascarpone ostinum að standa á borðinu í svolitla stund áður en er farið að gera tiramisú, það hjálpar hráefnunum að blandast betur saman.

Hellið upp á sterkt kaffi og leyfið að kólna lítillega.

Setjið egg og sykur saman í hrærivélarskál og þeytið saman þangað til það er létt og ljóst, í u.þ.b. 3-4 mín.

Þeytið þá rjómann í annarri skál og í þeirri þriðju bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Þegar súkkulaðið er bráðið, setjið hrærivélina af stað með eggjum og sykri og blandið súkkulaðinu saman við. Passið að súkkulaðið hafi kólnað lítillega áður. Blandið þá súkkulaðiblöndunni varlega við rjómann. Notið rjómaskálina og setjið mascarpone ostinn í og hrærið örlítið í honum. 

Blandið smá af súkkulaðirjómablöndunni við ostinn. Þegar hann hefur samlagast við blönduna, bætið öllu saman í eitt.

Karamellusósa

  • 200 g sykur
  • 50 ml vatn
  • 100 ml rjómi
  • 50 g smjör

Setjið sykur og vatn saman í pott á miðlungshita. Leyfið blöndunni að malla án þess að vera að hræra í henni þangað til að allur sykurinn er bráðinn, fylgist með þegar hún fær á sig gylltan lit. Þegar hún hefur fengið á sig lit er gott að slökkva undir og bæta rjómanum saman við og hræra á meðan. Þá er smjörinu blandað saman við og þá ætti karamellan að vera klár. 

Hellið í krukku sem hægt er að loka og leyfið að kólna.

Samsetning

Finnið til skál eða fat og sáldrið smá kakódufti í botninn (gott er að nota tesíu eða fínt sigti). 

Bleytið upp í Lady fingers kökum í kaffi, eina í einu og leggið í fatið. Stráið karamellu yfir kökurnar u.þ.b. 2 msk og sáldrið kakódufti yfir, setjið þar eftir um helming af blöndunni yfir. 

Þá er að endurtaka leikinn. Bleyta í kökunum og leggja yfir, karamella og kakóduft. 

Í lokin er seinni helming blöndunnar sett yfir eða sprautað á með stút sem myndar fallega áferð.

 Loks er rétturinn settur í kæli í 8 til 24 klst. 

Áður en rétturinn er borinn fram er kakódufti sáldrað yfir ásamt því að bjóða upp á restina af karamellusósunni.

Uppskriftina auk fjölda annarra má finna á vefsíðunni Döðlur og smjör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.