Fyrstir til að vinna Bournemouth síðan í nóvember

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leikmenn Tottenham gátu sannarlega fagnað í dag.
Leikmenn Tottenham gátu sannarlega fagnað í dag. Getty

Bournemouth hefur verið heitasta lið ensku úrvalsdeildarinnar síðustu vikur og hafði leikið sjö leiki án taps, þar af unnust sex, fyrir leik dagsins við Tottenham. Aðeins níu mínútur voru hins vegar liðnar af leiknum þegar Tottenham vann boltann ofarlega á vellinum og senegalski miðjumaðurinn Pape Matar Sarr tók á rás áður en hann skoraði laglegt mark frá vítateigslínunni.

Sarr var tekinn af velli þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum vegna meiðsla. Hann var í tárum er hann yfirgaf völlinn þar sem útlit er fyrir að meiðslin sem hann varð fyrir útiloki þátttöku hans á komandi Afríkumóti sem hefst fljótlega á nýju ári.

Giovani Lo Celso lagði upp mark Sarr og endurtók leikinn er hann bjó til mark fyrir Suður-Kóreumanninn Son-Heung Min á 71. mínútu. Um níu mínútum síðar skoraði Brasilíumaðurinn Richarlison þriðja mark Spurs og var mark Alex Scott fyrir Bournemouth skömmu síðar lítið annað en sárabót fyrir gestina sem þurftu að þola 3-1 tap.

Tottenham er fyrsta liðið til að vinna Bournemouth síðan Englandsmeistarar Manchester City gerðu það 4. Nóvember síðastliðinn og er hvítklædda liðið úr Norður-Lundúnum nú aðeins stigi á eftir grönnum sínum í Arsenal sem tapaði fyrir Fulham á sama tíma.

Tottenham er með 39 stig í fimmta sæti, stigi frá Manchester City og Arsenal sem eru í þriðja og fjórða.

Bournemouth er í tólfta sæti með 25 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira