Nýja árið fer vel af stað hjá Liverpool

Dagur Lárusson skrifar
Salah fagnar öðru marki sínu.
Salah fagnar öðru marki sínu. Vísir/Getty

Fyrir leik var Liverpool í efsta sætinu með 42 stig á meðan Newcastle var í níunda sætinu með 29 stig.

Leikmenn Liverpool sóttu án afláts í fyrri hálfleiknum og náðu að skapa sér mikið af góðum færum. Á 19. mínútu náði Luiz Diaz að koma boltanum í mark Newcastle en flaggið fór á loft en aðeins tveimur mínútum síðar fékk Liverpool vítaspyrnu. Á punktinn steig Mohamed Salah en hann lét Martin Dubravka verja frá sér og var staðan því enn þá 0-0 og var hún þannig í hálfleik.

Það tók Liverpool þó ekki langan tíma að ná forystunni í seinni hálfleiknum en það gerðist strax á 49. mínútu eftir flotta skyndisókn þar sem Darwin Nunez fékk boltann hægra megin í teignum og gaf hann fyrir markið á Salah sem þurfti að gera lítið annað en að ýta boltanum yfir línuna. Staðan orðin 1-0.

Þrátt fyrir lítið af tilraunum hjá Newcastle þá tók það ekki langan tíma fyrir liðið að jafna leikinn en það gerði Alexander Isak á 54. mínútu eftir undirbúning frá Anthony Gordon. Staðan orðin 1-1.

Leikmenn beggja liða voru farnir að þreytast á þessum tímapunkti en þó aðallega leikmenn Newcastle og því var það Liverpool sem náði forystunni á ný. Diogo Jota kom inn á sem varamaður og var ekki lengi að leggja sitt af mörkum en hann gaf stoðsendingu á Curtis Jones á 74. mínútu sem var með opið markið fyrir framan sig og skoraði. Staðan orðin 2-1. Staðan var síðan orðin 3-1 aðeins fjórum mínútum síðar og var það annar varamaður sem skoraði það, Cody Gakpo.

Newcastle náði að minnka muninn mað marki frá Sven Botman á 81. mínútu en Salah gerði síðan út um leikinn á 84. mínútu þegar hann tók sitt annað víti í leiknum en þá náði hann að skora.

Lokatölur 4-2 og Liverpool komið með þriggja stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira