Körfubolti

Fyrsti sigur Snæ­fellinga kom í botnslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Shawnta Grenetta Shaw var stigahæst í liði Snæfellinga.
Shawnta Grenetta Shaw var stigahæst í liði Snæfellinga. Vísir/Hulda Margrét

Snæfell vann nauman þriggja stiga sigur er liðið tók á móti Fjölni í botnslag Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld, 85-82. Var þetta fyrsti sigur liðsins á tímabilinu.

Liðin sátu í neðstu tveimur sætum deildarinnar fyrir leik kvöldsins, Fjölnir í næst neðsta sæti með fjögur stig, en Snæfell í neðsta sæti án stiga.

Heimakonur byrjuðu betur í leik kvöldsins og náðu sex stiga forskoti snemma leiks, en Fjölniskonur snéru taflinu sér í vil og leiddu með tveimur stigum að loknum fyrsta leikhluta, staðan 17-19.

Eftir að hafa lent ellefu stigum undir snemma í öðrum leikhluta náðu heimakonur í Snæfelli góðu áhlaupi og náðu forystunni fyrir lok fyrri hálfleiks. Heimakonur leiddu með tveimur stigum þegar liðin gengu til búningsherbergja og því enn allt í járnum þegar síðari hálfleikur hófst.

Liðin skiptust fjórum sinnum á forystunni í þriðja leikhluta og höfðu heimakonur fimm stiga forskot þegar komið var að fjórða og síðasta leikhluta leiksins. Þar virtust Fjölniskonur vera búnar að snúa leiknum sér í hag, en Snæfellingar skoruðu síðustu sex stig leiksins og unnu að lokum nauman þriggja stiga sigur, 85-82.

Shawnta Grenetta Shaw var stigahæst í liði Snæfellinga með 29 stig, en hún tók einnig tólf fráköst og gaf níu stoðsendingar. Korinne Campbell var atkvæðamest í liði Fjölnis með 32 stig ásamt því að taka ellefu fráköst og gefa þrjár stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×