Handbolti

Slæm úr­slit fyrir Ís­land í fyrsta leik dagsins á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Portúgalir fagna sigrinum á Norðmönnum.
Portúgalir fagna sigrinum á Norðmönnum. getty/Marcus Brandt

Portúgal vann Noreg, 32-37, í fyrsta leiknum í milliriðli 2 á EM í handbolta í dag. Úrslitin voru slæm fyrir íslenska liðið í baráttunni um að komast í umspil fyrir Ólympíuleikana í sumar.

Norðmenn voru með frumkvæðið framan af leik og komust nokkrum sinnum þremur mörkum yfir. Portúgal breytti hins vegar stöðunni úr 13-11 í 13-17 með sex mörkum í röð undir lok fyrri hálfleiks. Í hálfleik voru Portúgalir svo þremur mörkum yfir, 15-18.

Í seinni hálfleik var Portúgal alltaf fetinu framar og Noregi tókst aldrei að jafna þrátt fyrir nokkrar tilraunir.

Alexander Blonz minnkaði muninn í eitt mark, 31-32, þegar hann skoraði úr vítakasti en Portúgalir skoruðu fimm af síðustu sex mörkum leiksins og unnu hann, 32-37. 

Þeir fengu þar með sín fyrstu stig í milliriðli 2. Úrslitin voru óhagstæð fyrir Ísland en íslenska liðið er aðallega í baráttu við Portúgal, Holland og Austurríki um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Allar líkur eru á að Íslendingar þurfi að lenda fyrir ofan tvö af þessum þremur liðum til að ná markmiði sínu um að spila um Ólympíusæti.

Pedro Portela skoraði átta mörk fyrir Portúgal í leiknum gegn Noregi og Martim Costa sjö. Blonz var markahæstur Norðmanna með sjö mörk. Kristian Bjørnsen skoraði sex en Sander Sagosen hefur oft leikið betur og var aðeins með tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×