Sport

Sló Ís­lands­met á af­mælis­daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikael Aron Vilhelmsson átti magnaða helgi á Reykjavíkurleikunum í keilu.
Mikael Aron Vilhelmsson átti magnaða helgi á Reykjavíkurleikunum í keilu. @mikaelaron299

Mikael Aron Vilhelmsson átti eftirminnilega afmælisdag um helgina og það var ekki bara af því að hann komst á bílprófsaldurinn.

Mikael Aron setti þá nýtt Íslandsmet í sex leikjum á Reykjavíkurleikunum í keilu en það gerði hann með því að fá samtals 1558 stig eða fella 260 pinna að meðaltali í leik.

Niðurstaðan úr sex leikjum Mikael var 289, 265, 213, 269, 265 og 257.

Gamla metið átti Steinþór Geirdal Jóhannsson frá árinu 2016 en hann fékk þá 1545 stig.

Mikael sló jafnframt fjögur Íslandsmet í flokki sautján til átján ára en Mikael hélt upp á sautján ára afmælisdaginn sinn þennan sama dag.

Reykjavíkurleikarnir í keilu eru hluti af Evrópumótaröðinni í keilu þetta árið í fyrsta skipti og ríkir mikil spenna meðal keilara þetta árið sökum þess. Tveimur riðlum af þrettán er lokið og ljóst að mótið fer gríðarvel af stað. Uppselt var í fyrstu tvo riðlana og þá er von á mjög sterkum keppendum síðar í vikunni og eru keppendur frá ellefu þjóðum skráðir til leiks.

Næstir á eftir Mikael eru Adam Pawel Blaszczak, sigurvegari Reykjavíkurleikanna 2022, Andri Freyr Jónsson, sigurvegari Reykjavíkurleikanna 2021, Hafþór Harðarson, sigurvegari Reykjavíkurleikanna 2020 og Hinrik Óli Gunnarsson, ríkjandi Íslandsmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×