Gísli var augljóslega þjáður þegar hann hoppaði á öðrum fæti af velli, eftir að hafa lent illa á gólfinu og Domagoj Duvnjak um leið og Gísli skoraði þriðja mark sitt í leiknum.
Hlúð var að Gísla utan vallar í nokkrar mínútur en hann fór svo inn til búningsklefa og sást ekki meira hjá keppnisgólfinu eftir það.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari sagði við Vísi eftir leik að Gísli hefði meiðst í ristinni. Hann væri á leið á sjúkrahús í myndatöku til að skera úr um alvarleika meiðslanna og fleira væri ekki hægt að segja að svo stöddu.
Stutt er í næsta leik Íslands því liðið mætir Austurríki strax á miðvikudag. Eftir sigurinn gegn Króatíu í dag er mögulegt að leikurinn við Austurríki verði upp á sæti í undankeppni Ólympíuleikanna.