Handbolti

„Al­gjör við­bjóður og ó­geðs­legt að kyngja því“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Pálmarsson var allt annað en sáttur við spilamennsku sína á mótinu.
Aron Pálmarsson var allt annað en sáttur við spilamennsku sína á mótinu. Vísir/Vilhelm

„Við vorum bara með þetta fyrsta hálftíman,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta eftir tveggja marka sigur liðsins gegn Austurríki í dag, 26-24.

Þrátt fyrir sigurinn eru úrslitin vonbrigði þar sem íslenska liðið hefði þurft fimm marka sigur til að eiga góða möguleika á sæti í umspili fyrir Ólympíuleikana í sumar. Sigurinn þýðir þó að vonin lifir enn, en Ísland þarf nú að treysta á að Ungverjar taki stig af Frökkum.

„Við komum okkur í þessa frábæru stöðu, en ég veit ekki hvað skeði þarna fyrsta korterið í seinni. Við gefum þeim þetta forskot aftur til baka og mætum ekki klárir. Því fer auðvitað svona og það er bara algjör viðbjóður og ógeðslegt að kyngja því.“

Þá segist fyrirliðinn finna fyrir reiði eftir leikinn.

„Já. Ég er rosalega reiður út í sjálfan mig. Það er eiginlega svona það fyrsta sem er að koma upp núna strax eftir leik. Ég er mjög pirraður út í sjálfan mig að hafa ekki spilað betur fyrstu leikina á þessu móti og það nagar mig rosalega núna. Það er eiginlega það eina sem kemst fyrir hjá mér. Ég þarf að fara vel yfir það hvernig ég kom inn í mótið og allt andlega.“

„Miðað við það sem við höfum sýnt, það sem við höfum talað um og höfum sýnt á þessu móti, en í allt of stutta kafla, þá eigum við að gera betur. Við eigum ekki að vera í þessari stöðu sem við erum í í dag. Þannig að það er eitthvað sem við þurfum klárlega að læra af.“

Að lokum var Aron stuttorður þegar hann var spurður út í það hvort mótið hafi verið vonbrigði.

„Já. Klár vonbrigði,“ sagði Aron Pálmarsson einfaldlega að lokum.


Tengdar fréttir

„Við getum alveg kallað þetta vonbrigði“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var vægast sagt svekktur eftir tveggja marka sigur gegn Austurríki í lokaleik liðsins á EM í handbolta í dag. Hann segir að mótið hafi að vissu leyti verið vonbrigði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×