Lífið

Þúsund sænskir tón­listar­menn vilja úti­loka Ísrael

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sænska tónlistarkonan Robyn er á meðal tónlistarmanna í Svíþjóð sem vilja meina Ísrael þátttöku í Eurovision í ár.
Sænska tónlistarkonan Robyn er á meðal tónlistarmanna í Svíþjóð sem vilja meina Ísrael þátttöku í Eurovision í ár. Erika Goldring/FilmMagic

Rúmlega þúsund sænskir tónlistarmenn hafa ritað nafn sitt undir áskorun þess efnis að Ísrael verði meinað þátttaka í Eurovision söngvakeppninni í ár. Meðal þeirra sem hafa sett nafn sitt á listann eru Robyn og Erik Saade.

Í umfjöllun Aftonbladet um málið kemur fram að ástæðan séu árásir Ísraela á Gasa, þar sem þúsundir almennra borgara liggja í valnum. Haft er eftir tónlistarmönnunum að neyðarástand sé á Gasa.

Bent er á að athæfi Ísraela hafi verið til skoðunar hjá Alþjóðamannréttindadómstólnum í Haag. Þá er bent á að Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) hafi árið 2022 vísað Rússum úr keppni vegna brota þeirra á alþjóðalögum, í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu.

„Okkar skoðun er sú að það felist tvöfeldni í því að leyfa Ísrael að taka þátt sem rýri trúverðugleika samtakanna,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Svíanna.

Þess er getið í umfjöllun Aftonbladet að sambærileg áskorun hafi komið fram á Íslandi og í Finnlandi af hálfu tónlistarmanna. Þá vekur það athygli að tveir listamannanna sem rita nafn sitt á listann, Jacqline og tvíeykið Medina, eru bæði keppendur í Melodifestivalen, sænsku söngvakeppninni í ár.

Aftonbladet hefur eftir Anders Wistbacka, einum af skipuleggjendum Melodifestivalen, að það sé ekki brot á reglum keppninnar að setja nafn sitt á slíkan lista. Áður hefur EBU gefið út í yfirlýsingu að Ísrael verði ekki meinað að taka þátt.

Þess er getið að SVT, sænska ríkisútvarpið hafi sent frá sér yfirlýsingu vegna undirskriftalista tónlistarmannanna. Þar er þess getið að það sé á ábyrgð EBU að taka ákvörðun um þátttöku landa í Eurovision.


Tengdar fréttir

Ísrael verður ekki meinuð þátttaka í Eurovision

Ísrael verður ekki meinuð þátttaka í Eurovision söngvakeppninni sem fram fer í Malmö í ár. Þetta er ákvörðun skipuleggjenda keppninnar í Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×