Lífið

Unaðs­stund Elizu og Guðna

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Það fór vel á með píanóhjónunum og forsetahjónunum í Hörpu í gærkvöldi.
Það fór vel á með píanóhjónunum og forsetahjónunum í Hörpu í gærkvöldi. Eliza Reid

Forsetahjónin Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson skelltu sér á tónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í Eldborgarsal Hörpu í gærkvöldi. Goldberg-tilbrigðin voru flutt fyrir fullum sal. Unaðsstund að sögn Elizu.

Eliza segir frá gærkvöldinu á Instagram-síðu sinni og óskar Víkingi Heiðari til hamingju með stórafmælið. Píanósnillingurinn fagnaði fertugsafmæli sínu í gær.

„Til hamingju með stórafmælið, Víkingur Heiðar Ólafsson! Þvílíkur unaður að fá að hlusta á einn af tónlistarsnillingum Íslands leika Goldberg-tilbrigðin fyrir fullum Eldborgarsal í Hörpu í gær,“ segir Eliza og birtir mynd af þeim hjónum með Víkingi Heiðari og Höllu Oddnýju Magnúsdóttur eiginkonu hans.

Goldberg-tilbrigðin eru af mörgum talin eitt flottasta píanóverk sögunnar en Johann Sebastian Bach samdi þau árið 1741.

Víkingur Heiðar er orðinn vanur því að fræga fólkið taki púlsinn á honum að loknum tónleikum. Sjálfur Sting heilsaði upp á Víking Heiðar að loknum vel heppnuðum tónleikum hans í Carnegie Hall í New York á dögunum.

„Ekki síður gaman var að fá tækifæri til að óska snillingnum til hamingju með stórafmælið þegar við heilsuðum upp á hann og eiginkonu hans Höllu Oddnýju Magnúsdóttur baksviðs eftir tónleikana. Takk fyrir okkur!“ segir Eliza fyrir hönd forsetahjónanna.

Þau hafa verið á ferð og flugi undanfarna daga síðan Eliza kom heim úr vel heppnaðri ferð á bókamessu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þau hafa bæði heimsótt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ þar sem heldri Grindvíkingar dvelja og gúffað í sig saltkjöti og baunum með fólkinu hjá Sjálfsbjörg.

Víkingur Heiðar getur slakað á með fjölskyldunni í dag en fram undan eru tvennir tónleikar í Hörpu til viðbótar, á föstudags- og sunnudagskvöld.


Tengdar fréttir

Forsetahjónin fagna sprengidegi

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú fagna sprengideginum eins og fjölmargir Íslendingar. Hjónin kíktu í heimsókn til Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu í dag og fengu sér saltkjöt og baunir.

Eliza að drukkna í viðtölum í Dubai

Eliza Reid forsetafrú og rithöfundur lætur vel af heimsókn sinni til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem hún var á meðal þátttakenda í Emirates Literary bókahátíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.