Sport

Stuðnings­maður RB Leipzig lést í stúkunni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn RB Leipzig þakka áhorfendum eftir leikinn í gær.
Leikmenn RB Leipzig þakka áhorfendum eftir leikinn í gær. Vísir/Getty

Það ríkir sorg hjá þýska knattspyrnufélaginu RB Leipzig eftir að stuðningsmaður félagsins lést í stúkunni á meðan liðið lék gegn Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni í gær.

Leikurinn fór fram í Leipzig í gær en heimavöllur félagsins rúmar rétt yfir 47.000 manns og var hann fullsetinn.

Leikurinn var stöðvaður í fyrri hálfleik þegar atvikið átti sér stað og tilkynnti RB Leipzig á samfélagmiðlinum X að verið væri að hlúa að stuðningsmanni á pöllunum. Leiknum var haldið áfram skömmu síðar.

Hálftíma síðar kom önnur tilkynning frá félaginu þar sem greint var frá því að stuðningsmaðurinn hefði látið lífið og vottaði félagið aðstandendum samúð.

„Við erum afar sorgmædd og allar okkar hugsanir á þessari erfiðu stundu fara til fjölskyldu og aðstandenda,“ skrifaði Leipzig í tilkynnningunni.

Eftir leikinn var stuðningsmaðurinn heiðraður af áhorfendum á vellinum sem sungu „Við erum Leipzig“ á meðan þeir lýstu með ljósum á símum sínum.

Þetta var ekki eini sorgaratburðurinn í tengslum við leikinn. Á föstudaginn lést stuðningsmaður Mönchengladbach í bíslsysi samkvæmt frétt Sky Sports í Þýskalandi.

Leiknum lauk með 2-0 sigri Leipzig sem er í 5. sæti úrvalsdeildarinnar. Mönchengladbach er í 14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×