Vísir greindi frá því á fimmtudag að á rúmri viku hefði Ísland skotist upp um fimm sæti í veðbönkum þar sem spáð er fyrir um gengi laganna í Eurovision-söngvakeppninni.
Þar spilaði inn í að Bashar Murad, sem laut í lægra haldi fyrir Heru Björk, var talinn langlíklegastur til að sigra Söngvakeppni sjónvarpsins. Veðbankar höfðu gefið honum 48 prósenta sigurlíkar á meðan Hera Björk var aðeins með um tíu prósent.
En veðbankar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér og Hera hafði betur. Hugsanlega hefur hin umdeilda einvígis-útfærsla spilað þar inn í en það hefur nokkrum sinnum gerst að keppandi sem var efstur eftir fyrri hluta úrslitakvöldsins tapar þegar komið er í einvígið.
Það gerðist til að mynda þegar Systur unnu Reykjavíkurdætur sem höfðu verið langvinsælastar í fyrri hluta kosningarinnar.