Ágúst Jóhannsson var að vonum sáttur með sitt lið beint eftir leik.
„Ég er mjög ánægður með leik liðsins, mér fannst við spila stóran kafla mjög vel. Varnarleikurinn góður, náðum að halda þeim í 21 marki, samt hefur markvarslan oft verið betri þannig að við eigum það aðeins inni fyrir laugardaginn. Náðum að keyra ágætlega á þær, sérstaklega svona framan af leik svo fórum við aðeins að hægja á þegar við sáum í hvað stemmdi. Spara aðeins orkuna og hvíla okkur en sigldum þessu bara örugglega. Bara sannfærandi sigur.“
Ágúst hrósaði þó frammistöðu ÍR-liðsins í leiknum en mikill uppgangur hefur verið hjá kvennaliði ÍR síðustu mánuði.
„Mikið hrós til ÍR-liðsins. Mér finnst þær spila vel og þær voru óheppnar að missa Hönnu [Karen Ólafsdóttur] út snemma í leiknum. Þær voru erfiðar og bara virkilega flottur framgangur á þeirra leik.“
Varnarleikurinn var grunnur Vals að sigrinum með Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttir fremsta í stafni í þeim hluta leiksins.
„Við spilum bara yfirleitt góða 6-0 vörn með stabíla markvörslu, það er kannski svona okkar uppskrift, og að keyra hraðaupphlaupinn. Við bara gerðum það vel sérstaklega í fyrri hálfleik, skorum 17 mörk og vorum komnar í góða stöðu í hálfleik. Maður vissi að fyrstu 10-15 mínúturnar í seinni myndu svona skera úr um það, að halda þessu þannig þá er maður komin í góð mál.“
Aðspurður hvernig undirbúningi liðsins verður háttað fram að úrslitaleiknum á laugardag, þá sló Ágúst á létta strengi.
„Núna æfum við rólega á morgun og ég ætla bara að hrynja í það. Nei, ég er að djóka. Við bara æfum rólega á morgun og fundum og svo bara ætlum við að vera tilbúin að mæta, hvort sem það er Stjarnan eða Selfoss, bara hvort tveggja verðugir andstæðingar,“ sagði Ágúst að lokum.