Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) stóð fyrir góðgerðaruppboði í Gallerí Fold síðastliðinn föstudag til styrktar UN Women á Íslandi. Dagurinn var alþjóðlegur baráttudagur kvenna og stóð FKA fyrir uppboðinu undir nafninu „Fjárfestum í konum“ sem var einmitt tilefnið þar sem ágóðinn rennur óskiptur til verkefna UN Women á heimsvísu.
Fram kemur í tilkynningu frá hópnum að jákvæðni, hlátur og sameiginlegur tilgangur hafi einkennt kvöldið. Safnast hafi tæplega níu hundruð þúsund krónur. Framlagið muni styðja mikilvægt starf UN Women á heimsvísu við að efla jafnrétti kynjanna.
Ekki þykir vanþörf á þar sem áætlað er að þrjú hundruð ár séu í að raunverulegt jafnrétti náist, haldi þróunin áfram á sama hraða og nú. Kynnir kvöldsins, Svanlaug Jóhannsdóttir, hvatti öll viðstödd til að opna veskin með góðum húmor og uppboðshaldarinn Jóhann Hansen sá um sjálft uppboðið.
„Það var hvetjandi að sjá svona margar konur koma saman til að styðja hverja aðra, hafa gaman en í senn hafa góð áhrif á samfélagið. Þessi viðburður hefði ekki orðið nema með rausnarlegum gjöfum frá Gallerí Fold, Arion banka, Coca Cola og öllu því frábæru listafólki sem gáfu verkin sín,“ sagði Kristjana Thors Brynjólfsdóttir frá Alþjóðanefnd FKA.