Íslenski boltinn

„Þetta er fallhópur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkismenn björguðu sér frá falli á síðasta tímabili.
Fylkismenn björguðu sér frá falli á síðasta tímabili. vísir/diego

Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, segir að Fylkismenn tefli á tæpasta vað með því styrkja liðið ekki meira en þeir hafa gert fyrir átökin í Bestu deild karla í sumar.

Fylki er spáð 11. sæti Bestu deildarinnar í árlegri spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports. Fylkismenn enduðu í 8. sæti í fyrra.

Fylkir hefur misst sterka leikmenn á borð við Arnór Gauta Jónsson, Pétur Bjarnason og Ólaf Karl Finsen í vetur og ekki bætt miklu við liðið.

„Ég veit ekki hvort þeir eru í mínus. Það eru spurningarmerki. Þeir eru mögulega á pari, jafnvel í mínus. Halldór Jón Sigurður Þórðarson er eini af leikmönnunum sem þeir hafa fengið sem hefur sannað sig í efstu deild en hinir eiga það eftir. Það er mikið farið úr sóknarleiknum og maður hefur áhyggjur af því,“ sagði Baldur í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar.

„Þeir björguðu sér alveg í lokin í fyrra, á stemmningstímabili þar sem Rúnar [Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis] barði trú í hópinn að þeir væru nógu góðir til að halda sér uppi. Það hefur minna farið fyrir því núna þannig maður hefur smá áhyggjur af Fylki.“

Atli Viðar Björnsson segir að Rúnar Páll sé sannarlega með leikmenn Fylkis á bak við sig.

„Manni fannst það svo augljóst að þeir kokgleyptu allt sem hann sagði í fyrra og hefðu hlaupið í gegnum veggi fyrir manni. Það var klárt mál að hann var algjörlega með hópinn með sér en það verður fróðlegt að sjá hvort það haldi þegar við komum inn í mótið í ár,“ sagði Atli Viðar.

En eru Fylkismenn kaldir að fara inn í tímabilið með þennan hóp?

„Mér fannst þeir kaldir í fyrra og finnst þeir kaldir í ár. Þetta er stanslaus samanburður. Menn bera sig saman við hin liðin. Hvar er þetta lið samanborið við hin liðin í deildinni? Varðandi hópinn og leikmennina sem þeir eru með myndi ég segja að þeir væru fyrir neðan línu. Þetta er fallhópur. Það er spurning hvað þú getur gert með hann. Það tókst í fyrra þannig það verður spennandi að sjá hvað þeir gera í ár,“ sagði Baldur.

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á Spotify sem og öllum hlaðvarpsveitum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×