Íslenski boltinn

„Held að þeir séu ekki síður hungraðir en í fyrra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingar fagna sigrinum á Valsmönnum í Meistarakeppni KSÍ 1. apríl.
Víkingar fagna sigrinum á Valsmönnum í Meistarakeppni KSÍ 1. apríl. vísir/hulda margrét

Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur Stúkunnar, segir að Íslandsmeistarar Víkings geti bætt enn frekar í og segir að spennandi tímabil sé í vændum í Fossvoginum.

Víkingi er spáð 2. sæti Bestu deildarinnar í árlegri spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrra.

Víkingar eiga titil að verja, bæði í Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum, eftir sannkallað draumatímabil í fyrra.

En er einhver ástæða fyrir því að Víkingur ætti að gefa eftir í sumar?

„Jájá, það er alveg hægt að finna þær ef þú vilt leita að þeim. En það er líka alveg ástæða til að halda að þeir séu bara að fara að bæta í og gefa enn meira í en í fyrra. Það er spennandi tímabil hjá þeim framundan varðandi Evrópukeppnina. Ég held að þeir séu ekki síður hungraðir en í fyrra í þetta tækifæri í Evrópukeppninni,“ sagði Atli Viðar.

„Ég held að það sé engin ástæða til annars en að þeir fylgi eftir síðasta tímabili og haldi áfram að bæta ofan á.“

Baldur Sigurðsson veltir fyrir sér hvort einbeiting Víkinga verði meiri á Evrópukeppninni í sumar en síðustu ár.

„Það er galið að ætla að vera eitthvað sniðugur núna og fara að segja annað en að þeir ætli að fara að taka titilinn aftur. En þetta getur gerst. Við sáum þetta gerast hjá Blikunum í fyrra,“ sagði Baldur.

„Þegar þú hefur Evrópukeppnina, sem er nánast á sama stalli og Íslandsmeistaratitilinn, ef það kemur eitthvað mótlæti í kringum hana mun það sama gerast og hjá Blikunum síðasta sumar; þá taka þeir allan fókus af deildinni og setja allan kraft í Evrópukeppnina. Maður sér að þarna er möguleiki á veikleika hjá Víkingum gagnvart deildinni.“

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á Spotify sem og öllum hlaðvarpsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×