Um­fjöllun: Valur - Minaur Baia Mare 36-28 | Fara út með átta marka for­skot

Hinrik Wöhler skrifar
Valsmenn hrósuðu sigri í fyrri leiknum á Hlíðarenda
Valsmenn hrósuðu sigri í fyrri leiknum á Hlíðarenda vísir / anton brink

Valur gerði sér lítið fyrir og sigraði rúmenska liðið CS Minaur Baia Mare með átta mörkum í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Evrópubikar EHF. Leikurinn endaði 36-28 og fara Valsmenn með átta marka forskot til Rúmeníu. 

Síðari leikur liðanna er eftir viku og er ljóst að Valur er í kjörstöðu til þess að fara áfram í úrslitaleik Evrópubikarsins.

Það var frábær mæting og stemning í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld og greinilegt að Valsmenn kunna þetta upp á tíu eftir Evrópuævintýri fyrri ára. Það var líf og fjör fyrir leik, Jói P og Króli voru mættir til að trylla lýðinn og komu stuðningsfólki í gírinn.

vísir / anton brink

Leikurinn byrjaði hægt en markverðir beggja lið, Björgvin Páll Gústavsson og Anton Terekhov, voru vel á verði í upphafi leiks. Það var jafnt framan af en um miðbik fyrri hálfleiks stigu Valsmenn á bensíngjöfina. 

Heimamenn spiluðu hraðan sóknarleik og refsuðu rúmenska liðinu fyrir hægagang. Gestirnir voru ekki nægilega fljótir til baka og áttu í erfiðleikum með að stöðva seinni bylgju Valsmanna. Eftir 20 mínútur var staðan orðin 12-6 fyrir Val. Björgvin Páll hélt áfram að verja og á meðan gekk lítið upp hjá Baia Mare í vörn og sókn.

vísir / anton brink

Gestirnir náðu að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 18-14, Val í vil, í hálfleik.

Valsmenn komu mjög grimmir til leiks í seinni hálfleik og voru gríðarlega hreyfanlegir í vörninni. Eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik í síðari hálfleik voru Valsmenn komnir með átta marka forystu.

Alls komust ellefu leikmenn Vals á blað í kvöld og það skipti ekki máli hvern Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, setti inn á í sóknarleik liðsins. Það virtist allt ganga upp hjá heimamönnum og rúmenska liðið átti fá svör við hröðum sóknum heimamanna.

vísir / anton brink

Leikurinn endaði með átta marka sigri, 36-28. Ljóst er að Valsmenn eru í góðum málum fyrir síðari leikinn í Rúmeníu og er farseðillinn í úrslitaleik Evrópubikarsins í augsýn.

Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur Valsmanna með sex mörk í kvöld og var Tjörvi Týr Gíslason öflugur á línunni en hann skoraði fimm mörk úr jafnmörgum tilraunum. Björgvin Páll Gústavsson var í miklu stuði og varði 18 skot í leiknum og að auki náði hann að skora í tvígang þegar hann kastaði yfir allan völlinn í tómt markið.

Viðtöl

„Ógeðslega góðir þegar við erum í þessari stemningu“

Markahæsti maður Vals, Benedikt Gunnar Óskarsson, var vitaskuld hæstánægður með frammistöðu liðsins í kvöld.

„Við vorum ógeðslega góðir í dag, spiluðum frábæra vörn og keyrðum frábærlega. Mér líður frábærlega,“ sagði Benedikt skömmu eftir leik.

Það kom fátt Benedikt á óvart í spilamennsku Baia Mare og greinilegt að faðir og þjálfari hans, Óskar Bjarni Óskarsson, var búinn að undirbúa sína menn vel fyrir leikinn.

„Nei, kom fátt á óvart. Við erum búnir að horfa á fullt af leikjum hjá þeim og erum með fullt af klippum. Við erum ógeðslega góðir þegar við erum í þessari stemningu og á þessum dúk. Við erum frábærir hérna.“

Þrátt fyrir að vera markahæsti maður liðsins þá var Benedikt ekki nægilega sáttur með sína eigin frammistöðu í kvöld.

„Nei, eiginlega ekki. Ég klikkaði aðeins á mörgum skotum en annars var ég bara fínn,“ sagði Benedikt þegar hann var spurður út í hvort hann væri sáttur með sitt framlag í leiknum.

„Þeir eru íþróttamenn og munu koma til baka en við munum koma jafn grimmir í þann leik. Það er ekkert annað í boði,“ sagði Benedikt um síðari leik liðanna eftir viku.

Benedikt var í skýjunum með stuðninginn á pöllunum og finnst hvergi betra að vera.

„Þetta er bara geðveikt. Ég elska að spila hérna, það er bara nánast uppselt og allir vinir mínir eru í stúkunni,“ sagði Benedikt að lokum.

Fleyri myndir

Hávaði á Hlíðarendavísir / anton brink

vísir / anton brink

vísir / anton brink

vísir / anton brink

vísir / anton brink

vísir / anton brink

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira