Íslenski boltinn

Sjáðu Berg­kamp-mót­töku Björns Daníels og Horn­firðinginn unga klára KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Sigurðsson var hetja Fram í gær og fagnar hér sigurmarki sínu í leiknum í gær.
Freyr Sigurðsson var hetja Fram í gær og fagnar hér sigurmarki sínu í leiknum í gær. Vísir/Anton Brink

FH og Fram unnu sína leiki í Bestu deild karla í fótbolta í gær og Framarar, undir stjórn Rúnars Kristinssonar, urðu þar með fyrstir til að vinna KR-liðið í sumar. Nú má sjá mörkin úr leikjunum inn á Vísi.

FH-ingar unnu sinn annan sigur í röð þegar þeir sóttu þrjú stig í Kórinn með því að vinna 2-0 sigur á heimamönnum í HK. Bæði mörkin komu í seinni hálfleik.

Ástbjörn Þórðarson skoraði fyrra markið á 67. mínútu eftir stoðsendingu frá Arnóri Borg Guðjohnsen en seinna markið var fallegast mark gærdagsins.

Það skoraði Björn Daníel Sverrisson á 80. mínútu eftir að hafa fengið langa og háa sendingu frá miðverðinum Ísaki Óla Ólafssyni.

Klippa: Mörkin og rauða spjaldið úr leik HK og FH

Björn Daníel breyttist þá í Dennis Bergkamp, tók boltann frábærlega niður með einni snertingu eins og Bergkamp var þekktur fyrir. Hann skaut honum síðan viðstöðulaust í markið nánast án þess að HK-ingar áttuðu sig á því hvað var að gerast. Frábær tilþrif og flott mark.

Fram vann 1-0 útisigur á KR en KR-ingar urðu að spila fyrsta heimaleik sinn á Þróttaravellinum í Laugardal. KR hafði unnið tvo fyrstu leiki sína en þeir voru báðir á útivelli.

Freyr Sigurðsson skoraði eina mark leiksins strax á sjöundu mínútu en þessi átján ára strákur kom í Fram frá Sindra á Hornafirði.

Hann var réttur maður á réttum stað eftir laglega sókn og stoðsendingu frá Magnúsi Þórðarsyni.

Það má sjá mörkin úr leikjunum hér fyrir ofan og neðan.

Klippa: Markið úr leik KR og Fram



Fleiri fréttir

Sjá meira


×