Sport

Kolli í titil­bar­daga sem gæti valdið vatna­skilum

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Kristinsson er með stórt tækifæri í höndunum.
Kolbeinn Kristinsson er með stórt tækifæri í höndunum.

Stórar dyr gætu opnast fyrir hnefaleikakappann Kolbein Kristinsson takist honum að vinna titilbardaga sem fram fer 1. júní næstkomandi.

Kolbeinn hefur nú fengið staðfestan titilbardaga við hinn 42 ára gamla Mika Mielonen. Þeir munu berjast í átta lotu bardaga upp á Baltic Boxing Union beltið sem er á lausu þessa dagana og án eiganda.

Mielonen verður á heimavelli því bardaginn fer fram á hnefaleikakvöldi í bænum Jarvenpaa, rétt fyrir utan Helsinki, sama dag og Íslendingar velja sér nýjan forseta.

Í fréttatilkynningu segir að takist Kolla að vinna viðureignina þá muni það skila honum í 80. sæti yfir bestu þungavigtarmenn í heiminum. Það þýði jafnframt að Kolli yrði þá orðinn nægilega stórt nafn til þess að berjast á stærstu hnefaleikakvöldum í heiminum, t.d. á DAZN, Netflix eða í Ríad.

Mika Mielonen og Kolbeinn Kristinsson mætast í Finnlandi, 1. júní.

Kolli barðist síðast í Vínarborg í september í fyrra og vann þá yfirburðasigur á Englendingnum Michael Bassett. Þessi 36 ára kappi hefur unnið alla fjórtán bardaga sína á ferlinum, og þar af átta með rothöggi.

Mielonen er með átta skráða bardaga og hefur unnið sjö þeirra, þar af sex með rothöggi. Eina tap hans hingað til var gegn landa hans, Robert Helenius.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×