Íslenski boltinn

Tveir leikir á Akur­eyri og bikar­meistararnir lentu á móti Fylki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar hafa verið duglegir að vinna Mjólkurbikarinn undanfarin ár.
Víkingar hafa verið duglegir að vinna Mjólkurbikarinn undanfarin ár. Vísir/Hulda Margrét

Dregið var í dag í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins í fótbolta hjá báðum kynjum og það verða tveir Bestu deildar slagir hjá bæði körlum og konum.

Átta liða úrslitin eiga að vera spiluð 11. og 12. júní í kvennaflokki og 12. og 13. júní í karlaflokki.

Það verða krýndir nýir bikarmeistarar í kvennaflokki þar sem bikarmeistarar Víkings duttu út á móti Aftureldingu í sextán liða úrslitunum. Bikarmeistarar Víkings í karlaflokki eru aftur á móti enn á lífi í keppninni en þeir hafa unnið síðustu fjóra bikarúrslitaleiki.

Breiðablik, Valur og Þór/KA eru þrjú efstu liðin í Bestu deildinni en þau sluppu við hvert annað í drættinum. Bestu deildar slagirnir eru tveir, annars vegar leikur Breiðabliks og Keflavíkur og hins vegar leikur FH og Þór/KA.

Lengjudeildarlið Grindavíkur og Aftureldingar fá bæði heimaleiki en Grindvíkingar fá topplið Vals í heimsókn en Mosfellingar taka á móti Þrótti.

Bikarmeistarar Víkings fá Fylki í heimsókn í karlaflokki og Valsmenn heimsækja Lengjudeildarlið Keflavíkur. Keflavík hefur slegið út Bestu deildarlið Breiðabliks og ÍA til þessa í keppninni.

Víkingur-Fylkir er annar af tveimur Bestu deildar slögum átta liða úrslitanna en hinn verður á milli KA og Fram fyrir norðan.

Akureyrarliðin fengu því bæði heimaleik, því Lengjudeildarlið Þórs frá Akureyri fær heimaleik á móti Stjörnunni.

  • Átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna:
  • Breiðablik-Keflavík
  • Afturelding-Þróttur R.
  • Grindavík-Valur
  • FH-Þór/KA
  • -
  • Átta liða úrslit Mjólkurbikars karla:
  • Víkingur R.-Fylkir
  • Keflavík-Valur
  • KA-Fram
  • Þór Akureyri-Stjarnan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×