Upp­gjör: FH - Fram 3-3 | Ó­trú­leg endur­koma Fram í Krikanum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Alex Freyr Elísson hóf endurkomu Fram gegn FH.
Alex Freyr Elísson hóf endurkomu Fram gegn FH. vísir/anton

FH tók á móti Fram í 9. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Bæði lið með það markmið að koma sér upp í efri hlutann og aðeins eitt stig sem skilur liðin að. FH-ingar voru betri bróðurpart leiksins en þegar um hálftími var eftir gáfu Framarar í og skildu liðin jöfn, 3-3.

Leikurinn fór hægt af stað en það voru FH-ingar sem voru ákafari að sækja á mark Framara. Á 8. mínútu tók Kjartan Kári Halldórsson aukaspyrnu sem ratar beint á markið en Ólafur Íshólm Ólafsson varði vel í marki Framara.

Á 22. mínútu tók Böðvar Böðvarsson hornspyrnu sem endar með darraðadans inn í teig Framara. Guðmundur Magnússon steig fyrir Ísak Óla Ólafsson sem fellur við og vítaspyrna dæmd. Úlfur Ágúst Björnsson fór á punktinn fyrir FH-inga og kom boltanum í netið. Staðan 1-0 fyrir FH.

FH-ingar héldu áfram að sækja hart að marki Framara og mættu lítilli mótspyrnu. Á 43. mínútu keyrði Kjartan Kári upp vinstri kantinn og sendi boltann inn í teig Framara þar sem að Vuk Óskar Dimitrijevic kom fljúgandi inn og skallaði boltann í netið. Staðan orðin 2-0 og gengu FH-ingar sáttir inn í klefa í hálfleik.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks í seinni hálfleik. Þegar rúmlega 10 mínútur voru liðnar sendi Kjartan Kári á Sigurð Bjart Hallsson sem kom sér í frábært færi einn á móti Ólafi Íshólm og setti boltann snyrtilega í netið, 3-0.

Þá sóttu Framarar í sig veðrið og á 62. mínútu átti Viktor Bjarki Daðason skot á mark sem Ísak Óli á línu. Mínútu seinna skallaði Guðmundur Magnússon boltann á Alex Frey Elísson sem skoraði fyrir Framara. Staðan orðin 3-1.

Liðin skiptust á að sækja. Á 77. mínútu fékk Böðvar Böðvarsson að líta sitt annað gula spjald eftir brot á Tryggva Snæ Geirsson rétt fyrir utan teig. Framarar fengu aukaspyrnu og var það Haraldur Einar Ásgrímsson sem tók hana og skoraði. Staðan 3-2.

Þegar tæplega fimm mínútur voru eftir af leiknum tók Haraldur Einar aukaspyrnu, boltinn endaði hjá Kyle McLagan sem jafnaði metin fyrir Fram. Það var jafnframt síðasta markið sem skorað var í leiknum. Lokatölur 3-3.

Atvik leiksins

FH-ingar voru betri bróðurpart leiksins en eftir að fyrsta mark Fram kom þá urðu þeir miklu ákveðnari og eftir að Böðvar fékk að líta rauða spjaldið misstu FH-ingar hausinn og Framarar skoruðu tvö mörk til viðbótar.

Stjörnur og skúrkar

Kjartan Kári í liði FH-inga var frábær í þessum leik. Hann var með tvær stoðsendingar og var gjörsamlega allt í öllu þar til að hann fór útaf. FH-liðið í heild voru stjörnur í fyrri hálfleik en léttir skúrkar í seinni. Framarar áttu erfitt uppdráttar í fyrri en algjör viðsnúningur eftir fyrsta markið og kórónuðu það eftir rauða spjaldið.

Dómarinn

Pétur Guðmundsson var heilt yfir með mjög góð tök á leiknum. Vítaspyrnudómurinn virtist vera réttur, hann leyfði leiknum að fljóta og var ekki að rífa flautuna upp að óþörfu. Hann fær átta í einkunn fyrir þessa frammistöðu.

Stemmning og umgjörð

Það var gríðarleg stemmning þegar gengið var inn í Kaplakrika í dag. Fullt af fólki var mætt til að fá áritun frá Íslandsmeisturunum í handbolta og svo er mikil stemmning yfir þessu tjaldi sem þeir eru með fyrir framan. Íslandsmeistararnir voru mættir með leikmönnum inn á völlinn að lyfta bikarnum og skörtuðu FH-ingar nýjum búningi fyrir Píeta-samtökin. Eina sem er hægt að setja út á að bæði í byrjun leiksins og í byrjun seinni hálfleiks var klukkan ekki sett í gang og „Ég er á leiðinni“ með Brunaliðinu fékk að óma aðeins inn í seinni hálfleikinn en annars var allt upp á tíu.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira