Bardaginn átti upphaflega að fara fram 20. júlí en það þurfti að fresta honum eftir að Tyson veiktist í flugi í síðasta mánuði.
Tyson er með magasár og varð óglatt og svimaði í flugi frá Miami til Los Angeles í síðasta mánuði. Læknir ráðlagði gamla heimsmeistaranum svo að taka því rólega á næstunni og því þurfti að fresta bardaganum við Paul.
Nú er ljóst að hann fer fram föstudaginn 15. nóvember á AT&T Stadium í Arlington í Texas, heimavelli NFL-liðsins Dallas Cowboys. Bardaginn verður sýndur beint á Netflix.
Tyson verður 58 ára 30. júní en Paul er 27 ára. Tyson vann síðast opinberan boxbardaga 2003. Á sínum tíma var hann fremsti þungavigtaboxari heims og margfaldur heimsmeistari.