Orðrómur þess efnis að McGregor væri mögulega meiddur og að ekkert myndi verða af bardaga hans við Bandaríkjamanninn Michael Chandler spruttu upp þegar að blaðamannafundi kappanna í Dyflinni var aflýst á elleftu stundu.
Bardagans er beðið með mikilli eftirvæntingu en hann markar endurkomu McGregor, sem er og hefur verið stærsta nafnið í heimi bardagaíþrótta undanfarinn áratug eða svo, í búrið.
McGregor hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann er óútreiknanlegur. Þá hefur frægð hans og frami oft á tíðum stigið honum til höfuðs.
Því var það ekki óeðlilegt að orðrómar, þess efnis að ekkert yrði af bardaganum, færu á kreik. McGregor er þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir og í þokkabót er hann að snúa aftur í bardagabúrið eftir að hafa fótbrotnað í síðasta bardaga sínum og hefði ekki verið óvenjulegt ef bakslag hefði gert vart um sig í endurkomunni.
Írinn gerir hins vegar sitt í því að þagga niður í öllum orðrómi með téðum myndböndum sem hann birti á samfélagsmiðlum. Þau sýna hann meðal annars fara ansi illa með æfingafélaga sinn í búrinu og virðist McGregor vera á réttri leið í undirbúningi sínum.
UFC 303 bardagakvöldið í T-Mobile leikvanginum í Las Vegas, þar sem aðalbardagi kvöldsins er á milli Conor McGregor og Michael Chandler, fer fram aðfaranótt sunnudagsins 30.júní næstkomandi. Bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á Vodafone Sport.