Körfubolti

Á­tján ára körfuboltastrákur sagður vera 2,36 metrar á hæð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Rioux er mjög hávaxinn en það á eftir að koma í ljós hversu hreyfanlegur hann getur verið inn á vellinum þegar samkeppnin harðnar.
Olivier Rioux er mjög hávaxinn en það á eftir að koma í ljós hversu hreyfanlegur hann getur verið inn á vellinum þegar samkeppnin harðnar. @olivier.rioux

Hávaxnasti körfuboltamaður heims er enn að stækka.

Olivier Rioux er að hefja feril sinn í bandaríska háskólakörfuboltanum á komandi vetri. Rioux hefur ákveðið að spila með körfuboltaliði Florida Gators.

Hæð hans vekur auðvitað mikla athygli en það eru liðin þrjú ár síðan að Guinness World Records lýstu því yfir að Rioux væri hæsti táningur í heimi.

Þá var hann 2,26 metrar á hæð en samkvæmt nýjustu skráningu þá er strákurinn orðinn 2,36 metrar á hæð.

Hann er því enn að stækka og var hann nú nógu stór fyrir.

Rioux er fæddur í Quebec í Kanada en hefur stundað gagnfræðanám á Flórída. Hann reyndi einnig fyrir sér um tíma með unglingaliði Real Madrid.

Foreldrar hans eru hinn 203 sentímetra hái Jean-Francois og hin 185 sentímetra háa Anne Gariepy. Faðir hans spilaði blak.

Þegar hann var sautján ára gamall þá spilaði hann með nítján ára landsliði Kanada á HM og var þá með 3,2 stig og 3,4 fráköst að meðaltali í leik.

Þegar hann lék með sextán ára landsliðinu í Ameríkukeppninni árið 2021 þá var Rioux með 8,3 stig, 10,3 fráköst og 2,3 varin skot á 18,8 mínútum á meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×