Sport

Frá­bær og sögu­leg byrjun Ís­lands á HM í pílu­kasti

Aron Guðmundsson skrifar
Tvöfaldur tuttugu frá Pétri Rúðrik tryggði Íslandi sigur í fyrsta leik liðsins á HM í pílukasti
Tvöfaldur tuttugu frá Pétri Rúðrik tryggði Íslandi sigur í fyrsta leik liðsins á HM í pílukasti Vísir/Skjáskot

Fulltrúar Íslands á HM í pílukasti, sem fram fer í þýsku borginni Frankfurt þessa dagana, fara vel af stað á mótinu. Íslenska liðið vann 4-0 sigur á Barein í fyrsta leik sínum sem stillir upp hreinum úrslitaleik um sæti í næstu umferð við landslið Tékkalands. Sögulegur sigur, sá fyrsti hjá Íslandi á HM.

Það eru þeir Pétur Rúðrik Guðmundsson og Arngrímur Anton Ólafsson sem mynda lið Íslands á mótinu og óhætt er að segja að þeir hafi fundið sig vel á stóra sviðinu í Frankfurt í morgun þegar að þeir léku sinn fyrsta leik í H-riðli gegn Barein. 

Vinna þurfti fjóra leggi til þess að tryggja sér sigur í viðureigninni og þeir Pétur Rúðrik og Arngrímur Anton voru ekkert að tvínóna við hlutina, heldur unnu fyrstu fjóra leggi viðureignarinnar og sópuðu þar með Barein af sviðinu. 

Hér má sjá stundina þegar að Pétur Rúðrik tryggði Íslandi sigur gegn Barein í morgun en sjá má í klippunni hversu mikla ofurtrú liðsfélagi Péturs, Arngrímur Anton, hafði á sínum manni. Arngrímur var byrjaður að fagna áður en Pétur tryggði sigurinn:

Seinna í dag mætir íslenska liðið svo landsliði Tékklands. Tékkar fóru ekki eins auðveldlega í gegnum Barein er liðin mættust í opnunarleik riðilsins í gær og verður athyglisvert að sjá hvernig okkar menn taka á Tékkunum. 

Bein útsending frá seinni hluta keppnisdagsins á HM í pílukasti, þar sem sjá má viðureign Íslands og Tékklands, hefst klukkan fimm á Vodafone Sport. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×