Viðskipti innlent

Arion banki greiði Seðla­bankanum 585 milljónir

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Arion banki gerði sátt við Seðlabankann vegna brota á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti.
Arion banki gerði sátt við Seðlabankann vegna brota á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Vísir/Vilhelm

Arion banki hefur gert sátt við Seðlabanka Íslands og verður gert að greiða sekt að fjárhæð 585 milljóna króna ásamt því að skuldbinda sig til úrbætur vegna brota gegn lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafði haft málið til meðferðar í einhvern tíma og frummat eftirlitsins var sent til Arion banka 20. júní 2023. Með bréfi í lok ágúst sama árs lýsti Arion banki yfir vilja til að ljúka málinu með sátt.

Í tilkynningu á vef Seðlabankans kemur fram að brot Arion banka hafi verið mörg og varði marga grundvallarþætti í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

„Þá teljast brotin alvarleg og nokkur brot eru ítrekuð frá fyrri athugun fjármálaeftirlitsins á fylgni bankans við lögin sem fór fram árið 2020. Loks varða mörg brot viðskiptamenn og vörur sem teljast til mikillar áhættu með tilliti til peningaþvættis, s.s. reiðufjárviðskipti,“ segir í tilkynningunni.

Með undirritun sáttarinnar hefur bankinn gengist við því að hafa gerst brotlegur. Arion banka ber að skila úttekt á úrbótum bankans innan fjórtán vikna frá undirritun sáttarinnar.

Sáttina má lesa í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×