Við sögðum nýlega frá Magnúsi Þorfinnssyni, 85 ára heklumeistara á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri en það eru fleiri karlmenn en hann sem kunna að hekla en það er Tryggvi Anton Kristinsson 82 ára í Hafnarfirði.
Það var gaman að heimsækja Tryggva Anton og sjá allt handverkið, sem hann hefur heklað en allt það sem hann gerir gefur hann til Rauða krossins.
„Þetta er allt í lagi ef maður kann það. Ég er mest að hekla barnateppi eða trefla. Svo hef ég líka verð að hekla fyrir fólk, sem er að biðja mig um það,” segir Tryggvi.
Og útsaumuðu myndirnar hans Tryggva upp á veggjum eru glæsilegar og svo allir púðarnir, sem hann er búin að gera og svo málverkin hans.
„Myndirnar sem þú varst að taka myndir af eru þær, sem ég málaði á Hrafnistu. Þetta er allt ljómandi gott, betra að gera þetta heldur en að gera ekki neitt,” bætir Tryggvi við.
Hvetur þú karla til að vinna í svona handverki?
„Því ekki það, það er ekkert verra heldur en að sitja á rassinum og gera ekki neitt,” segir Tryggvi hlæjandi.
Og Tryggvi hefur sett mikið af allskonar módelum saman í gegnum árin og þá hefur hann unnið nokkra bikara fyrir pílumót á Hrafnistu þar sem hann fer í dagvist þrjá daga í viku.