Sport

Ein sú besta dregur sig einnig úr keppni á Wimbledon

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sabalenka vann Opna ástralska fyrr á árinu en er nú að glíma við meiðsli á öxl.
Sabalenka vann Opna ástralska fyrr á árinu en er nú að glíma við meiðsli á öxl. Andy Cheung/Getty Images

Aryna Sabalenka mun ekki keppa á Wimbledon-mótinu í tennis vegna meiðsla. Fyrir ekki svo löngu var tilkynnt að hún myndi ekki keppa á Ólympíuleikunum í sumar en hún ætlaði sér þó að keppa á Wimbledon.

Þessi 26 ára gamla tenniskona frá Hvíta-Rússlandi vann Opna ástralska risamótið í janúar. Hún datt á dögunum út úr átta manna úrslitunum á Opna franska meistaramótinu á móti rússneska táningnum Mirru Andreevu.

Það var í fyrsta sinn sem Sabalenka komst ekki í undanúrslit á risamóti síðan á Opna franska meistaramótinu árið 2022.

Fyrr í dag var greint frá því að Sabalenka hefði svo dregið sig úr keppni á Wimbledon vegna meiðsla á öxl. Hún reyndi að æfa í dag en meiðslin eru þess eðlis að hún neyddist til að draga sig úr keppni.

Erika Andreeva, eldri systir Mirru, kemur inn í staðinn en hún hafði fallið úr leik í lokaumferð undankeppni mótsins.

Wimbledon fór fyrst fram árið 1877 og er eitt virtasta mótið í tennis. Mótið í ár hófst þann 24. júní og lýkur 14. júlí.


Tengdar fréttir

Harmi slegin en þau voru hætt saman

Önnur besta tenniskona heims hefur nú tjáð sig opinberlega eftir óvænt andlát íshokkíþjálfarans og fyrrum íshokkkíleikmannsins Konstantin Koltsov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×