Sport

Sau­tján ára strákur lést eftir að hafa hnigið niður í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zhang Zhijie þótti öflugur spilari enda þarf mikið til að komast í unglingalandslið Kína í badminton.
Zhang Zhijie þótti öflugur spilari enda þarf mikið til að komast í unglingalandslið Kína í badminton. Twitter

Badmintonsamband Asíu og kínverska utanríkisráðuneytið sendu bæði samúðarkveðjur vegna fráfalls kínversk tánings á Asíumóti unglinga í badminton í Indónesíu.

Hinn sautján ára gamli Zhang Zhijie hné niður í miðjum leik á mótinu í Yogyakarta í Indónesíu.

Zhang var þarna að spila á móti japanska keppandanum Kazuma Kawano. Læknalið mótsins mætti á staðinn áður en hann var fluttur á brott í sjúkrabíl. Hann lést síðan á sjúkrahúsinu.

Staðan var 11-11 í leiknum þegar Zhang hné niður. Það kom seinna í ljós að hann hafði fengið hjartaáfall.

Badmintonsamband Asíu og kínverska utanríkisráðuneytið sendu foreldrum, fjölskyldu og kínverska badmintonsambandinu sínar samúðarkveðjur. Foreldrar Zhang eru á leiðinni til Indónesíu til að sækja hann.

Zhang byrjaði að spila badminton í leikskóla og komst í kínverska unglingalandsliðið á síðasta ári. Hann vann hollenskt unglingamót fyrr á þessu ári en það er eitt það virtasta í hans aldursflokki í heiminum.

Kínverska badmintonsambandið er að skoða það betur hvort að Zhang hafi fengið rétta hjálp strax og hvernig hafi verið staðið að umönnun hans á leikstaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×