Körfubolti

Höttur fær annan Dana til sín: „Vona að þið séuð ekki komin með ó­geð af dönskum leik­mönnum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Adam spilaði með St. Cloud háskólanum í Bandaríkjunum. 
Adam spilaði með St. Cloud háskólanum í Bandaríkjunum. 

Adam Heede-Andersen samdi við Subway deildar liðið Hött frá Egilsstöðum. Hann hefur verið viðriðinn danska landsliðið og kemur frá Værløse í heimalandinu.

Það ætti að auðvelda Adam aðlögunina að hjá Hetti er fyrir danski framherjinn Gustav Suhr-Jessen en hann framlengdi samning sinn eftir tímabilið og mun spila eitt ár til viðbótar með Hetti.

Adam er skotbakvörður, 187 sentimetrar á hæð og var með 14,5 stig 4,8 fráköst og 6,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í dönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Hann var kallaður inn í danska landsliðshópinn fyrir leik gegn Finnlandi fyrr á árinu en spilaði ekki.

Adam var kynntur á samfélagsmiðlum og sendi aðdáendum liðsins myndskilaboð.

„Adam hérna, ég vona að þið séuð ekki komin með ógeð af dönskum leikmönnum því ég er mjög spenntur að koma til liðsins. Ég get ekki beðið eftir að koma til Egilsstaða og hitta ykkur öll, kynnast liðsfélögunum, hitta þjálfarana og spila fyrir framan bestu aðdáendur Íslands. Þetta verður gaman og við munum halda áfram að taka skref í rétta átt. Áfram Höttur!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×