Íslenski boltinn

Frederik fer frá Val og Ögmundur gengur til liðs við fé­lagið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fredrik hefur verið markmaður Vals undanfarin tvö ár en Ögmundur Kristinsson mun taka hans stað næstu þrjú árin.
Fredrik hefur verið markmaður Vals undanfarin tvö ár en Ögmundur Kristinsson mun taka hans stað næstu þrjú árin.

Frederik Schram hefur ákveðið að framlengja ekki samning sinn við Val sem rennur út eftir tímabilið. Ögmundur Kristinsson snýr heim úr atvinnumennsku og mun verja mark Valsmanna næstu þrjú árin. 

Valur tilkynnti breytingarnar rétt í þessu. Frederik hefur varið mark Vals frá því í júní 2022 og verið einn fremsti markvörður deildarinnar undanfarin tvö ár. Valsmenn vildu hafa hann lengur í sínum herbúðum en eftir samtöl við Frederik var ljóst að það myndi ekki ganga. 

Ögmundur Kristinsson er uppalinn Framari en hefur verið í atvinnumennsku undanfarin tíu ár, nú síðast hjá A.E. Kifisia F.C. og Olympiacos í Grikklandi. Ögmundur er laus allra mála hjá gríska liðinu AE Kifisias og verður því löglegur með Valsmönnum þegar glugginn opnar 17. júlí næstkomandi. 

„Ég er ótrúlega ánægður með að vera kominn í Val sem er alvöru félag. Ég þekki auðvitað marga stráka í liðinu og hérna er verið að gera hlutina rétt að mínu mati. Ég er ekki bara að koma heim til þess að spila fótbolta heldur langar mig að vinna titla og ná árangri. Valur er einfaldlega besta félagið að mínu mati og hér er ég sannfærður um að mér muni líða vel,“ 

Segir Ögmundur Kristinsson, markvörður Vals frá og með 17. júlí.

Valur spilar við Fylki á morgun og á svo tvo mikilvæga leiki í undankeppni Sambandsdeildarinnar gegn KS Vllaznia Shkodër. Fyrri leikurinn fer fram á Hlíðarenda næsta fimmtudag og þess má vænta að Frederik standi vaktina þar. Seinni leikurinn fer svo fram 18. júlí þegar Ögmundur verður kominn með leikheimild. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×