Sport

Sektaður fyrir að kyssa konu sína og barn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julien Bernard sést með ungum syni sínum fyrir eina sérleiðina í Tour de France.
Julien Bernard sést með ungum syni sínum fyrir eina sérleiðina í Tour de France. Getty/Dario Belingher

Franski hjólakappinn Julien Bernard fékk enga miskunn frá yfirmönnum Frakklandshjólreiðanna um helgina.

Hinn 32 ára gamli Bernard var að keppa á sjöundu sérleið Tour de France og hún fór einmitt í gegnum heimahérað hans.

Þegar Bernard sá eiginkonu sína og barn meðal áhorfenda þá smelti hann koss á þau bæði um leið og hann hjólaði fram hjá. Það var frábær stund fyrir Julian, eiginkonuna Margot og Charles son hans.

Alþjóða hjólreiðasambandinu var ekki skemmt og sektaði hann um 32 þúsund íslenskar krónur vegna óviðeignandi framkomu í keppni.

„Ég væri alltaf til í að borga þessa upphæð fyrir að fá að upplifa þessa stund aftur. Ég vissi að konan mín og vinir myndu skipuleggja eitthvað í brekkunni. Þetta var draumamóment. Ég naut þess,“ sagði Julien Bernard.

Það er þó ekki hægt að segja að Bernard hafi verið í toppbaráttunni í keppninni því hann endaði í 71. sæti í sjöundu sérleiðinni.

Það má sjá atvikið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×