Íslenski boltinn

Feðgar komu við sögu þegar Ingi Björn missti bæði markametin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Pedersen fagnar markinu sem gerði hann að markahæsta Valsmanninum frá upphafi.
Patrick Pedersen fagnar markinu sem gerði hann að markahæsta Valsmanninum frá upphafi. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Ingi Björn Albertsson var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins í þrjátíu ár og markahæsti Valsmaðurinn í 46 ár. Nú hefur hann misst bæði þessi markamet sín.

Tryggvi Guðmundsson tók af honum markametið árið 2012 og um helgina sló Patrick Pedersen metið yfir flest mörk fyrir Val í efstu deild karla í fótbolta.

Pedersen skoraði tvö mörk í 4-0 sigri Vals á Fylki en það voru jafnframt mörk númer 109 og 110 fyrir Val í efstu deild.

Skoraði síðasta markið sem þingmaður

Ingi Björn skoraði 109 mörk fyrir Val í efstu deild á sínum tíma en það síðasta kom sumarið 1987 þegar hann var orðinn þingamaður.

Það vill svo til að feðgar komu við sögu þegar Ingi Björn missti bæði þessi markametin sín. Tryggvi Guðmundsson tók eins og áður sagði metið af honum yfir flest mörk í efstu deild fyrir tólf árum en á laugardaginn var það sonur Tryggva, Guðmundur Andri, sem færði Pedersen, markið sem sló metið, á silfurfati.

Guðmundur Andri var kominn í gegn en í stað þess að skjóta sjálfur þá gaf hann boltann til hliðar á Pedersen sem skoraði í tómt markið. Hans 110. mark í efstu deild fyrir Valsmenn.

Ingi Björn Albertsson.

Ingi Björn var búinn að vera markahæsti Valsmaðurinn í 46 ár eða síðan hann sló markamet Hermanns Gunnarssonar sumarið 1978.

Búinn að slá tvö markamet í sumar

Pedersen er þegar búinn að taka tvö markamet í sumar eða metin yfir flest mörk erlends leikmanns í efstu deild og flest mörk fyrir Val í efstu deild. Næst á dagskrá er að slá met Atla Viðars Björnssonar yfir flest mörk fyrir eitt félag í efstu deild.

Atli Viðar skoraði 113 mörk fyrir FH á sinum tíma og Pedersen vantar nú bara þrjú mörk til að jafna það.

  • Flest mörk fyrir Val í efstu deild karla:
  • 110 - Patrick Pedersen
  • 109 - Ingi Björn Albertsson
  • 81 - Hermann Gunnarsson
  • 60 - Guðmundur Þorbjörnsson
  • 45 - Sigurður Egill Lárusson
  • Flest mörk fyrr eitt félag í efstu deild karla:
  • 113 - Atli Viðar Björnsson fyrir FH
  • 110 - Patrick Pedersen fyrir Val
  • 88 - Steven Lennon fyrir FH
  • 84 - Hörður Magnússon fyrir FH
  • 81 - Hermann Gunnarsson fyrir Val
  • 81 - Guðmundur Steinsson fyrir Keflavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×