Lífið

Draumaferðin til Ís­lands komst sí­fellt í upp­nám

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ferðin til Íslands bara ætlaði ekki að ganga upp.
Ferðin til Íslands bara ætlaði ekki að ganga upp. Vísir/Vilhelm

Draumaferð ungs pars frá Detroit-borg í Bandaríkjunum til Íslands komst í uppnám eftir að hver flugferðin á eftir annarri brást þeim. Parið komst eftir miklar raunir til Íslands í síðustu viku og gat loksins slegið upp langþráðri brúðkaupsveislu.

Staðarmiðill frá Detroit á vegum ABC-fréttastofunnar fjallaði um mál parsins, Zach og Meghan Wardell, á dögunum. Fyrsta fluginu þeirra var frestað vegna vélarvandræða.

Í öðru fluginu voru þau á leið frá Detroit til Amsterdam með flugfélaginu Delta þegar farþegi kvartaði yfir því að maturinn í vélinni væri ónýtur. Í kjölfarið tilkynnti flugstjórinn að vélinni yrði snúið við, og vélinn lenti á JFK-flugvellinum í New York.

Delta hefur síðan gefið út yfirlýsingu þar sem félagið segist rannsaka hvernig standi á því að maturinn hafi verið ónýtur. Flugfélagið segist harma atvikið.

Frá New York flugu þau til Norður-Karólínu þar sem þau ætluðu að millilenda áður en þau færu til Íslands. En þegar þau voru að fara inn um hliðið að vél Icelandair var þeim tilkynnt að miðarnir þeirra væru ekki gildir.

„Við hugsuðum með okkur að þetta hlyti að vera brandari. Við vorum alveg örmagna,“ sagði Meghan Wardell.

Í kjölfarið voru þau aftur bókuð til New York. Þar voru þau um helgina þegar þau gáfu ABC-fréttastofunni viðtal. Þá sögðu þau ferðina sína í lausu lofti, en vonuðust til að ná brúðkaupinu, sem fór fram um helgina. Daginn eftir greindi ABC-fréttastofan frá því að þau væru loksins komin til Íslands eftir mikla svaðilför.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×