Lífið

Ræðir við BBC um „ofurslaka“ Ís­lendinga

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Eliza Reid fer yfir víðan völl í viðtalinu.
Eliza Reid fer yfir víðan völl í viðtalinu. Vísir/Egill

Eliza Reid forsetafrú fær gott pláss á forsíðu breska ríkisútvarpsins BBC í dag. Þar gefur hún lesendum meðmæli fyrir þá sem hafa í hyggju að heimsækja klakann.

Eliza fluttist hingað til lands fyrir tuttugu árum, eftir hafa kynnst Guðna Th. Jóhannessyni forseta við nám í Oxford.  „Það er ekki oft sem einhver flytur til annars lands til þess að móta framtíð þess sama lands, en það er það sem gerðist í tilfelli Elizu,“ segir í greininnni. 

Eliza segir landið hafa breyst mikið á þessum tuttugu árum, sér í lagi með tilkomu ferðamannastraumsins.

Ísland er sagt afar svalt í grein BBC. „Fjölskylduvænt samfélag. Mjög öruggur og frábær staður fyrir börnin til að alast upp,“ segir Eliza.

Hún segir best að halda fyrst til Reykjavíkur eða Akureyrar og mælir með beinu flugi norður. Mikilvægt sé að elta veðrið, nokkuð sem þarf ekki að segja landsmönnum tvisvar. Hún varar sömuleiðis við því að reyna að gera of mikið í einu. 

„Þetta er stærri eyja en margir halda. Það sem ég mæli með er að reyna að gera ekki of mikið.“

Hún mælir sérstaklega með sundlaugunum og gefur skýr fyrirmæli þeim sem ætla sér í sund.

„Ef þú ert í París og vilt hitta fólk, skaltu fara á kaffihús. Ef þú ert í Bretlandi, farðu á barinn. Ef þú ert á Íslandi, farðu í sund.“

Hún mælir sömuleiðis sérstaklega með ferð Reykjadal og beinir því til ferðamanna að smakka skyrið, lambið og fiskinn. Beint frá býli og úr sjó.

Umfjöllun BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×