Körfubolti

Fá­liðað lið Ís­land tapaði í undan­úr­slitum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eva Elíasdóttir skýtur að körfunni.
Eva Elíasdóttir skýtur að körfunni. Heimasíða FIBA

Íslenska U-20 ára landslið kvenna í körfuknattleik mátti sætta sig við tap gegn Belgum í undanúrslitum B-deild Evrópumótsins í körfuknattleik í dag.

Leikurinn í dag fór fram í skugga mikilla veikinda sem herja á leikmenn á mótinu í Búlgaríu. Svæsin mataraeitrun kom upp og hafa tugir leikmanna þurft að fá læknisaðstoð og íslenska liðið hefur ekki verið undanskilið. Alls voru fjórir leikmenn fjarverandi hjá Íslandi í dag og aðeins átta leikmenn skráðir á leikskýrslu.

Belgíska liðið hefur verið heppnara hvað veikindin varðar og voru með ellefu leikmenn skráða á leikskýrslu. Leikurinn í dag var jafn í upphafi en Belgar þó skrefinu á undan. Staðan var 16-11 eftir fyrsta leikhlutann en íslenska liðið átti góðan kafla í öðrum leikhluta og náði að jafna metin og komast yfir í stöðunni 22-21.

Belgar luku þó fyrri hálfleik betur og leiddu 28-24 að honum loknum. Í upphafi síðari hálfleiks gengu Belgar hins vegar frá leiknum. Þær hófu þriðja leikhlutann á 20-0 áhlaupi og munurinn kominn í tuttugu og fjögur stig.

Fagnað á íslenska bekknum.Heimasíða FIBA

Íslenska liðið náði aldrei að koma til baka eftir þetta. Belgíska liðið sigldi sigrinum örugglega í höfn og vann að lokum 87-51 sigur. Með sigrinum tryggði Belgía sér sæti í A-deild Evrópukeppninnar en Ísland á leik gegn Tékkum um 3. sætið á morgun klukkan 14:30 að íslenskum tíma.

Eva Elíasdóttir var stigahæst í íslenska liðinu í dag með 11 stig og Anna Lára Vignisdóttir skoraði 10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×