Lífið

Hélt niðri í sér hlátrinum yfir fölskum þjóð­söngnum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Ingrid Andress söng þjóðsöng Bandaríkjanna fyrir leikinn.
Ingrid Andress söng þjóðsöng Bandaríkjanna fyrir leikinn. Getty

Flutningur bandarísku kántrísöngkonunnar Ingrid Andress á þjóðsöng Bandaríkjanna í gær vakti vægast sagt ekki lukku. Stólpagrín hefur verið gert að fölskum flutningnum og hann jafnvel sagður vera á meðal þeirra verstu í sögunni.

Ingrid Andress var fengin til að syngja þjóðsönginn fyrir stjörnuleik bandarísku hafnaboltadeildarinnar í Texas-ríki í gær. Söngkonan, sem hefur fengið fjórar Grammy-verðlauna tilnefningar, fór sínar eigin leiðir er hún flutti þjóðsönginn og hitti ekki alveg á allar nóturnar. 

Flutningurinn vakti talsverða athygli á samfélagsmiðlum og hefur mikið grín verið gert að honum. Þar var því til að mynda velt upp hvort Ingrid hefði unnið í  happdrætti til að fá að syngja þjóðsönginn. „Það blæðir úr eyrunum mínum. Einn versti flutningur allra tíma á þjóðsöngnum,“ segir einn netverji á samfélagsmiðlinum X.

Þá sagði annar að þessi vika væri erfið fyrir eyru í Bandaríkjunum. Vísar hann þar til þess að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi, var skotinn í eyrað um helgina.

Það voru þó ekki bara netverjar sem furðuðu sig á flutningnum. Í útsendingunni mátti nefnilega sjá hafnaboltamanninn Alec Bohm þar sem hann virðist vera að halda í sér hlátrinum í beinni útsendingu á meðan Ingrid er að syngja.

Þá hefur þessu verið líkt við annan slæman flutning á þjóðsöngnum, þegar söngkonan Fergie söng hann fyrir stjörnuleik NBA árið 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×