Sport

Guð­björgu boðið á CrossFit mót í Egypta­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Valdimarsdóttir hefur orðið Íslandsmeistari í CrossFit og hefur verið í hópi bestu CrossFit kvenna Íslands undanfarin ár.
Guðbjörg Valdimarsdóttir hefur orðið Íslandsmeistari í CrossFit og hefur verið í hópi bestu CrossFit kvenna Íslands undanfarin ár. @guccivaldimarsdottir

Íslenska CrossFit konan Guðbjörg Valdimarsdóttir fékk boð um að keppa á CrossFit mótinu Combat Games sem verður haldið í Egyptalandi í september.

Guðbjörg, sem varð Íslandsmeistari í CrossFit árið 2022 og í öðru sæti á mótinu í fyrra, er nýflutt til Doha í Katar.

Hún fékk tilboð um að vinna þar sem þjálfari sem um leið hjálpar henni að einbeita sér meira að CrossFit íþróttinni.

„Ég fékk boð um að vinna hér sem þjálfari sem gerði mér kleift að vinna minna en ég hef þurft að gera á Íslandi. Ég get þar af leiðandi fókusað enn meira á CrossFit sem er búið að vera í forgangi fram yfir allt hjá mér síðastliðin þrjú ár,“ sagði Guðbjörg í stuttu spjalli við Vísi.

Guðbjörg fékk boð á Combat Games sem ein af bestu CrossFit konum þessa heimshluta.

„Ég veit svo sem lítið um þetta mót en ég keppti á Elfit í Egyptalandi árið 2021 og elskaði það,“ sagði Guðbjörg.

Henni líkaði mjög vel umhverfið í kringum keppnina í Egyptalandi fyrir þremur árum síðan.

„Það var svo gaman að keppa þarna. Þau eru svo mikið all in og miklir aðdáendur sem gerir þetta svo gaman. Þau ná að skapa svo góða stemmingu og svo eru margir að horfa á,“ sagði Guðbjörg.

„Þegar ég fékk boð um að keppa á öðru móti í Egyptalandi og núna þar sem ég bý nær, þá þurfti ég ekki langan tíma til að ákveða mig,“ sagði Guðbjörg.

Combat Games fara fram frá 11. til 13. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×