Sport

Má ekki koma til Banda­ríkjanna og missir því af heims­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ilya Makarov fær ekki leyfi til að koma til Bandaríkjanna og getur því ekki keppt á heimsleikunum í ár.
Ilya Makarov fær ekki leyfi til að koma til Bandaríkjanna og getur því ekki keppt á heimsleikunum í ár. @ilyamakrom

Rússinn Ilya Makarov fékk óvænt keppnisrétt á heimsleikunum í CrossFit á dögunum vegna lyfjahneykslis mótherja hans en ekkert verður þó að því að hann keppi á leikunum.

Makarov sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að hann fái ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og geti því ekki tekið þátt í ár.

Makarov endaði í fimmta sæti í undanúrslitamóti Asíu en þrír efstu fengu farseðil á heimsleikanna.

Þrír af fjórum mönnum sem enduðu á undan honum féllu á lyfjaprófi og því fékk Makarov sætið.

Nú lítur út fyrir það að aðeins einn karlmaður frá Asíu taki þátt í heimsleikunum en það er Arthur Semenov.

Samkvæmt reglum CrossFit þá eru aðeins þrír varamenn leyfðir þannig ef enginn þeirra kemst á leikanna þá er ekki farið neðar á listann í undankeppninni.

Morteza Sedaghat hefði verið næstur en í fyrra komst hann sjálfur ekki á leikanna vegna þess að hann fékk ekki hina eftirsóttu vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.

Þetta er fjórða árið í röð þar sem karlmanni, sem vinnur sér sæti á heimsleikunum í gegnum undankeppni Asíu, er neitað um vegabréfsáritun.

Það er þekkt þegar Roman Khrennikov, þá skjólstæðingur Snorra Baróns, fékk ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, og missti af heimsleikunum.

Khrennikov endaði á því að fá vegabréfsáritun og er einn besti CrossFit maður heims, varð annar á heimsleikunum 2002 og þriðji í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×