Íslenski boltinn

Loksins Evrópumark hjá Patrick Peder­sen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Pedersen skoraði loksins Evrópumark fyrir Valsmenn í gær.
Patrick Pedersen skoraði loksins Evrópumark fyrir Valsmenn í gær. Vísir/Anton Brink

Patrick Pedersen er mesti markaskorari Valsmanna frá upphafi en hann hafði beðið í meira en ellefu hundruð mínútur eftir marki í Evrópuleik.

Pedersen skoraði í gær sitt fyrsta Evrópumark fyrir Val þegar Valsmenn tryggðu sér sæti í annarri umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Það gerðu þeir með sannfærandi 4-0 útisigri á albanska félaginu Vllaznia.

Pedersen varð á dögunum markahæsti leikmaður Vals í efstu deild þegar hann skoraði sitt 110. mark í aðeins leik númer 176 og bætti þar með markamet Inga Björns Albertssonar.

Pedersen hafði aftur á móti ekki tekist að skora fyrir Val í Evrópuleikjum. Fyrir leikinn í gær var hann búinn að spila fjórtán Evrópuleiki fyrir Val án þess að skora.

1114 mínútur án þess að skora

Markið hans kom á 36. mínútu í gær. Þá var Pedersen búinn að vera inn á vellinum í 1114 mínútur í Evrópukeppnum án þess að skora.

Þetta voru sex leikir án þess að skora í forkeppni Meistaradeildarinnar, fimm leikir án þess að skora í forkeppni Evrópudeildarinnar og þrír leikir án þess að skora í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Hemmi Gunn á metið

Markið datt loksins inn í gær. Nú er bara að vona að Pedersen sé búinn að finna markaskóna í Evrópu og geti hjálpað Valsliðinu að komast enn lengra.

Hvort honum takist að slá markamet Vals í Evrópu er önnur saga en það er í eigu Hermanns Gunnarssonar sem skoraði á sínum tíma fjögur Evrópumörk fyrir félagið.

Patrick Pedersen skorar eitt af mörkum sínum fyrir ValVísir/Anton Brink
  • Mörk Patrick Pedersen fyrir Val eftir keppnum:
  • Í efstu deild: 110 mörk í 176 leikjum
  • Í bikarkeppni: 8 mörk í 15 leikjum
  • Í Evrópukeppni: 1 mark í 15 leikjum
  • Í deildabikar: 23 mörk í 30 leikjum
  • Í Reykjavíkurmóti: 19 mörk í 17 leikjum
  • Í Meistarakeppni: 1 mark í 2 leikjum
  • Samtals: 162 mörk í 255 leikjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×