Handbolti

Strákarnir spila um sjöunda sætið á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reynir Þór Stefánsson hefur verið atkvæðamikill á mótinu.
Reynir Þór Stefánsson hefur verið atkvæðamikill á mótinu. @hsi_iceland

Strákarnir í tuttugu ára landsliðinu í handbolta spila um sjöunda sætið á Evrópumótinu í Slóveníu en þetta varð ljóst eftir að liðið tapaði á móti Svíum í dag.

Svíarnir unnu þriggja marka sigur, 30-27, en þeir hafa unnið íslensku strákana tvisvar sinnum á þessu móti.

Reynir Þór Stefánsson og Andri Fannar Elísson voru markahæstir með fimm mörk hvor en þeir Atli Steinn Arnarsson og Eiður Rafn Valsson skoruðu þrjú mörk.

Svíarnir voru munu sterkari í fyrri hálfleiknum og þeir voru komnir fimm mörkum yfir eftir hann, 18-13.

Íslensku strákarnir gáfust hins vegar ekki upp. Þeir minnkuðu muninn í tvö mörk í upphafi seinni, 22-20 og náðu svo að jafna metin í 24-24. Íslenska liðið hafði þá unnið fyrstu 22 mínútur hálfleiksins 11-6.

Svíarnir voru aftur á móti sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér sigurinn.

Þetta var annað tap íslenska liðsins á móti Svíum á mótinu því Svíarnir unnu leik liðanna í riðlinum með tíu mörkum, 33-23. Þessi leikur var því mikil framför frá þeim skelli fyrir tæpri viku síðan.

Ísland spilar um sjöunda sætið á mótinu og mótherjinn þar er Noregur. Leikurinn fer fram á sunnudaginn. Svíar spila við Austurríkismenn um fimmta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×