Golf

Horschel leiðir þrátt fyrir leiðinda rigningu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rigning setti svip sinn á leik dagsins.
Rigning setti svip sinn á leik dagsins. Keyur Khamar/Getty Images

Dagur þrjú á Opna meistaramótinu í golfi litaðist af leiðinda rigningu. Billy Horschel leiðir með einu höggi þrátt fyrir að hafa spilað í hvað verstum aðstæðum í dag.

Hinn 37 ára gamli Horschel nýtti alla sína reynslu í dag þegar hann spilaði á tveimur höggum undir pari og er því á fjórum höggum undir pari þegar þrír hringir eru búnir á þessu fornfræga móti. Þar á eftir koma sex kylfingar - Justin Rose, Dan Brown, Russell Henley, Thriston Lawrence, Xander Schauffele og Sam Burns - á þremur höggum undir pari.

„Þetta snerist á endanum bara um að lifa af. Ég gerði vel í að lifa af og er gríðarlega ánægður að geta horft á töfluna og séð að ég er aðeins einu höggi á eftir fyrsta sætinu,“ sagði Rose eftir hring dagsins.

Hinn írski Shane Lowry réð engan veginn við rigninguna en hann var fremstur meðal jafningja þegar tveir hringir voru búnir. Hann spilaði hins vegar á sex höggum yfir pari í dag og féll alla leið niður í 9. sætið á einu höggi undir pari.

Lokadagur Opna meistaramótsins fer fram á morgun, sunnudag, og er í beinni á Stöð 2 Sport 4. Útsendingin hefst klukkan 08.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×