Fótbolti

Stelpur frá Malaví ryðja brautina á Rey Cup: „Þetta er risa­­­stórt“

Aron Guðmundsson skrifar
Mikil tímamót eiga sér stað seinna í dag þegar að stúlknalið Ascent Soccer frá Malaví mætir til leiks á Rey Cup og leika sinn fyrsta leik. Þar með verða þær fyrsta kvennaliðið frá Malaví til þess að leika knattspyrnuleik á evrópskri grundu.  Vísir/Sigurjón Ólason

Al­þjóð­lega knatt­spyrnu­mótið Rey Cup hefst formlega með fyrstu leikjum mótsins hér í Reykja­vík í dag. Á síðasta ári unnu malavískir drengir hug og hjörtu ís­lensku þjóðarinnar og stóðu uppi sem Rey Cup meistarar. Í ár verður sagan skrifuð á Rey Cup því í fyrsta sinn keppir kvenna­lið frá Malaví í knatt­spyrnu á evrópskri grundu.

Knattspyrnuakademía Ascent Soccer frá Malaví mætir til leiks með tvö lið á Rey Cup í ár. Eitt í flokki drengja og eitt í flokki stúlkna.

„Það er virki­lega gaman að halda þessu ævin­týri á­fram,“ segir Jóhann Bragi Fjall­dal, vel­gjörðar­maður Ascent Soccer og einn tveggja Ís­lendinga sem á upp­haf­legu hug­myndina að komu Ascent Soccer hingað til lands.“

Þær eru full­trúar þjóðar sem telur rúm­lega tuttugu milljón manns. Full­trúar allra malavískra knatt­spyrnu­stelpna. Þetta er frá­bær stund.

Líkt og við sögðum frá á síðasta ári er for­saga málsins sú að nokkrar ís­lenskar fjöl­skyldur bjuggu í Malaví þar sem að þær voru á vegum Utan­ríkis­ráðu­neytisins og unnu að þróunar­starfi þar í landi. Jóhann og annar ís­lenskur knatt­spyrnu­á­huga­maður komust þar í kynni við knatt­spyrnu­akademíuna Ascent Soccer sem hefur nú tvö ár í röð mætt til leiks með lið á Rey Cup í Reykja­vík.

„Í fyrra komu strákarnir, það var rosa­legt ævin­týri. Núna tókst okkur að taka stelpurnar með. Það er frá­bært,“ segir Jóhann Bragi. „Þetta er risa­stórt fyrir stelpurnar en líka fyrir akademíuna og malavískar stelpur al­mennt. Það er rosa vel fylgst með ferð þessara krakka í Malaví. Þetta vekur mikla at­hygli. Við erum rosa­lega á­nægð með að það hafi tekist að sauma þessu svona saman. Það er ekkert endi­lega auð­velt fyrir knatt­spyrnu­akademíu Ascent Soccer að ná saman liði í þessum aldurs­flokki.“

Stoltar af því að skrifa söguna

Strákarnir komu, sáu og sigruðu á Rey Cup í fyrra og reyna í ár að verja titil sinn. Stelpurnar sem skipa undir sex­tán ára lið Ascent Soccer munu þó ná gríðar­stórum á­fanga fyrir knatt­spyrnu­hreyfinguna í Malaví í heild sinni með því að hefja leika á Rey Cup seinna í dag í fyrsta leik gegn enska stórliðinu Arsenal.

Verður það í fyrsta sinn sem kvenna­lið frá Malaví spilar knatt­spyrnu­leik á evrópskri grundu en auk þess að vera með Arsenal í riðli skipa sterk lið Þróttar Reykja­víkur og FC Nor­djælland frá Dan­mörku riðil Ascent Soccer.

Tvær af leik­mönnum liðsins, þær Victoria Mkwala og Brid­get Katete, eru spenntar fyrir því að vera hluti af því að hefja nýjan kafla í sögu kvennaknatt­spyrnu Malaví.

Victoria Mkwala og Bridget Katete, tvær af leikmönnum Ascent Soccer frá MalavíVísir/Sigurjón Ólason

„Já og mjög stoltar,“ segir Victoria. „Við erum að búast við erfiðum and­stæðingum á mótinu. Erum að fara mæta liðum með stærri leik­mönnum en við erum vanar að spila gegn heima í Malaví. En okkur hlakkar til að keppa við þær, spila með þeim. Þetta verður al­gjör­lega ný reynsla fyrir okkur. Fyrsta skipti sem við spilum á móti liðum frá Evrópu.“

Meli­cy Lick­son er aðal­þjálfari undir sex­tán ára liðs Ascent Soccer. Hún segir reynsluna af Ís­landi hingað til hafa verið frá­bæra.

Melicy Lickson er þjálfari undir sextán ára liðs Ascent Soccer og jafnframt leikmaður aðalliðs akademíunnar sem varð landsmeistari á síðasta tímabiliVísir/Sigurjón Ólason

„Okkur líður mjög vel hérna. Fyrsti leikurinn mun verða erfiður. Við vitum ekki hvernig and­stæðingar okkar munu spila. Þetta verður glæ­ný reynsla fyrir okkur sem lið en við erum mjög spenntar. Í fyrsta skipti sem við komum til Evrópu að spila fót­bolta.

Þetta er frá­bært og stelpurnar eru til­búnar í að taka þátt á þessu móti. Undir­búningurinn hefur gengið vel og ég er full­viss um að stelpurnar geti sýnt okkur, og þeim sem horfa á, skemmti­legan fót­bolta.“

Það segir sig sjálft að að­stæður hér á landi, veður­fars­lega, eru tölu­vert frá­brugðnar þeim að­stæðum sem uppi eru í Malaví. Ekta ís­lenskt sumar­veður, rigning, tók á móti Ascent Soccer hér á landi en leik­menn að­laga sig að um­hverfinu.

„Við erum að að­lagast. Um­hverfið hér er allt öðru­vísi en heima í Malaví. Það er mun kaldara hér, það tekur tíma að venjast því en það verður allt í góðu með okkur. Við að­lögum okkur að þessu.“

Ekki hægt að líkja aðstæðum saman

En það þarf að að­lagast fleiru en bara veður­fars­legum að­stæðum hér á landi líkt og Rory Murp­hy, yfir­þjálfari Ascent Soccer knatt­spyrnu­akademíunnar, tjáir okkur. Knatt­spyrnu­legu að­stæðurnar, þá að­staðan í Malaví, er ekkert í líkingu við það sem boðið er upp á hér á landi.

„Það er auð­vitað ekki hægt að líkja þessu saman við neitt heima í Malaví,“ segir Rory sem ræðir við okkur á meðan að leikmenn Ascent Soccer æfa á Þróttaravellinum, glænýju gervigrasi. 

„Sem dæmi erum við hjá Ascent Soccer að fylgjast með leik­mönnum um gjör­valla Malaví. Í­búa­fjöldi Malaví er um tuttugu milljónir. Á hverju ári skoðum við um tíu til fimm­tán þúsund leik­menn. Til þess að skoða leik­menn nánar setjum við á lag­girnar svæðis­mót um allt land. Öll þau mót fara fram á moldar­völlum, það er ekki gras­flöt að finna á þessum svæðum. Flestir þeir krakkar sem við erum að skoða spila fót­bolta ber­fætt. Það eru að­stæðurnar sem er að finna í Malaví sökum van fjár­mögnunar og skorts á al­menni­legri að­stöðu.“

Rory Murphy, yfirþjálfari Ascent Soccer knattspyrnuakademíunnar í Malaví.Vísir/Sigurjón Ólason

Það er raunin, þær að­stæður, sem leik­menn Ascent Soccer á Rey Cup fetuðu sín fyrstu spor í knatt­spyrnu.

„Að koma frá svo­leiðis að­stæðum, fyrir um tveimur til þremur árum þar sem að við fundum þau með loft­litla bolta og engin mörk til að æfa með, yfir í að æfa á þessum full­komna gervi­gras­velli hér í Reykja­vík, með frá­bæra stúku hér í bak­sýn. Þetta er frá­bær upp­lifun fyrir þessa krakka. Ég er svo stoltur yfir því hverju þessir flottu krakkar okkar eru að á­orka.“

Það að stúlkna­lið Ascent Soccer sé einnig að fara brjóta blað í sögu kvennaknatt­spyrnu Malaví með fyrsta leiknum í Evrópu er stolt stund.

„Þetta er risa­stórt,“ segir Rory. „Í fyrsta sinn sem slíkt gerist hjá liði frá Malaví. Meira að segja kvenna­lands­lið Malaví hefur ekki upp­lifað þetta. Við höfum talað við stelpurnar um þessa stað­reynd. Það að á margan hátt eru þær full­trúar Malaví, gætu allt eins bara verið að keppa í lands­liðs­treyju Malaví, horft á sig sem lands­lið Malaví. Þær eru full­trúar þessarar þjóðar sem telur rúm­lega tuttugu milljón manna. Full­trúar allra malavískra knatt­spyrnu­stelpna. Þetta er frá­bær stund.“

Leikmenn Ascent Soccer eru spenntar fyrir því að hefja leika á Rey Cup.Vísir/Sigurjón Ólason

„Það verður gaman að sjá okkar stelpur og stráka spreyta sig á móti þessum liðum á Rey Cup, sem sum hver eru meðal þeirra bestu í heimi. Frá­bært tæki­færi til þess að læra og þróast sem leik­menn. Halda á­fram sinni veg­ferð á þann stað sem þær vilja komast á, leið að því tak­marki að verða at­vinnu­menn í í­þróttinni.“

Uppgangur í kvennaknattspyrnu hjá Ascent Soccer

Það er mikill upp­gangur í starfi Ascent Soccer tengt kvennaknatt­spyrnunni. Aðal­lið akademíunnar, sem nokkrir af leik­mönnum liðsins sem tekur þátt á Rey Cup eru hluti af, varð lands­meistari á síðasta tíma­bili og tekur í næsta mánuði þátt í undan­keppni Meistara­deildar Afríku.

„Við erum mjög stolt af starfi okkar í kvennaknatt­spyrnunni. Við erum að reyna stækka og efla þann hluta knatt­spyrnunnar í Malaví. Vinnum mikið með gras­rótinni í þétt­býlum Malaví, reynum í sam­starfi með sam­fé­laginu að efla þátt­töku kvenna í knatt­spyrnu. Meðal annars með því að skaffa búnað og halda þjálfara­búðir. Reynum að efla grunninn hjá okkur til þess að byggja ofan á.“

Það verður gaman að fylgjast með malavísku stelpunum reyna fyrir sér í knattspyrnu á evrópskri grundu í fyrsta sinn í sögunni seinna í dag.Vísir/Sigurjón Ólason

„Þetta kjarnast svo allt saman í aðal­liði okkar í kvenna­flokki sem keppir í full­orðins flokki en meðal­aldur leik­manna liðsins núna er um ní­tján ára. Við erum með marga unga leik­menn í liðinu á aldrinum fimm­tán til sex­tán ára. Liðið gerði sér lítið fyrir og varð lands­meistari í full­orðins flokki á síðasta tíma­bili. Frá­bær árangur og frá­bær stund þegar að liðið tryggði sér titilinn á leik­vangi sem tekur um fjöru­tíu þúsund manns í sæti. Árangur sem tryggir liðinu sæti í undan­keppni Meistara­deildar Afríku.“

Finna fyrir mikilli velvild

Sterkt tengsl hafa myndast milli Malaví og Ís­lands í gegnum knatt­spyrnu og Rey Cup. Tengsl sem hafa skapað tæki­færi fyrir leik­menn til þess að koma hingað til lands og reyna fyrir sér með ís­lenskum fé­lags­liðum eins og við sögðum frá fyrr á árinu í til­felli Levi og Precious sem hafa æft og spilað með liði Aftur­eldingar í ár.

„Við finnum fyrir rosa­lega mikilli vel­vild,“ segir Jóhann Bragi. „Þetta hefði aldrei geta gengið upp nema fyrir þær sakir að við höfum fengið stuðning frá fullt af ein­stak­lingum, fyrir­tækjum og stofnunum hér á landi til þess að láta þetta ganga upp. Vonandi heldur það bara á­fram svo við getum látið þetta rúlla ár frá ári.“

Jóhann Bragi Fjalldal, velgjörðarmaður Ascent SoccerVísir/Sigurjón Ólason

„Að ein­hverju leiti hefur þetta komið mjög skemmti­lega á ó­vart. Ekki bara það hversu dug­legir krakkarnir frá Malaví eru í að hafa sam­skipti við jafn­aldra sína hérna á Ís­landi. Heldur líka ís­lensku krakkarnir. Hvað þeir eru opnir og for­vitnir í sam­skiptum við krakkanna sem koma frá Malaví.

Sumir strákanna, sem kepptu fyrir hönd Ascent Soccer á Rey Cup í fyrra, eru enn í sam­bandi við vini sína sem þeir eignuðust hér á Ís­landi. Það er ó­trú­lega skemmti­legt.

„Þá kemur það mér alltaf svo mikið á ó­vart með þessa krakka hversu mikilli ró þeir búa yfir. Þau eru öll mjög ein­beitt og klár í að hafa gaman af þessari veg­ferð. Maður finnur alla­vegana ekki mikið stress í þeim.“






×