Handbolti

Þórir með besta leik­mann heims utan hóps í fyrsta leik á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norðmenn verða án hinnar frábæru Henny Ellu Reistad í leiknum í kvöld.
Norðmenn verða án hinnar frábæru Henny Ellu Reistad í leiknum í kvöld. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Þórir Hergeirsson er mættur á sína fjórðu Ólympíuleika sem aðalþjálfari norska kvennalandsliðsins og fyrsti leikur liðsins á móti Svíþjóð í kvöld.

Undir stjórn Þóris hafa norsku stelpurnar unnið gull (2012) og brons (2016, 2021).

Þórir hefur tilkynnt hvaða fjórtán leikmenn verða til taks í kvöld en athygli vekur að Henny Reistad, besti leikmaður heims á síðasta ári, er ekki meðal þeirra. NRK segir frá.

Reistad hefur verið kosin mikilvægasti leikmaðurinn á síðustu tveimur stórmótum, EM 2022 og HM 2023.

Reistad er að glíma við ökklameiðsli og er því ekki klár í slaginn. Þórir tekur enga óþarfa áhættu með hana og tekur í staðinn Thale Rushfeldt Deila í hópinn. Deila spilar sinn fyrsta leik á Ólympíuleikunum í kvöld.

„Það er ekkert sem ég vildi meira en að spila leikinn en sú þrá má ekki stjórna ákvörðuninni. Við gerum það sem er best fyrir fótinn,“ sagði Reistad við norska ríkisútvarpið í gær.

Á heimsmeistaramótinu síðastliðinn desember endaði norska liðið í öðru sæti en Reistad var kosin mikilvægasti leikmaður mótsins.

Hún var næstmarkahæst á mótinu með 52 mörk í 9 leikjum og gaf einnig 24 stoðsendingar. Hún nýtti 74 prósent skota sinna og skoraði bara fjögur mörk úr vítum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×