Rafíþróttir

Raf­í­þróttir fá sína eigin Ólympíu­leika

Atli Már Guðfinnsson skrifar
olympic-esports.jpeg

Stórt blað var brotið í sögu rafíþrótta á dögunum þegar alþjóðlega Ólympíunefndin samþykkti tillögu framkvæmdastjórnar Ólympíusambandsins um að setja á laggirnar sérstaka Ólympíuleika í rafíþróttum.

Þann 14. júni síðastliðinn lagði framkvæmdastjórn Ólympíusambandsins fram tillögu fyrir 142. fund Ólympíunefndarinnar um að stofnað yrði til sérstakra Ólympíuleika fyrir rafíþróttir. Tillagan var samþykkt einróma á fundi þann 23. júlí,  en enginn sat hjá og enginn mótmælti þegar kosið var.

Fyrstu Rafíþróttaleikar sambandsins, Olympic Esports Games, verða haldnir árið 2025 í Sádí Arabíu en framkvæmdastjórn Ólympíusambandsins hefur gert 12 ára samstarfssamning við Ólympíusamband Sádí Arabíu um aðkomu að skipulagi og utanumhaldi á Olympic Esports Games.

Framtíðin spennandi

Að svo stöddu liggur ekki fyrir í hvaða greinum verður keppt á leikunum 2025 né hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir rafíþróttir innan Ólympíuhreyfingarinnar, en ljóst er að þetta skref er mikil viðurkenning fyrir rafíþróttir almennt og ríkir mikil spenna innan rafíþrótta heimsins um hvað gerist næst eftir þennan stóra áfanga.

Framkvæmdastjóri Rafíþróttasambands Íslands, Jökull Jóhannsson tekur þessum fréttum fagnandi.

„Þetta fyllir okkur hjá RÍSÍ innblæstri og hvetur okkur áfram í þeirri vinnu að tryggja að á Íslandi sé öflugt umhverfi fyrir rafíþróttir og að Ísland geti tekið virkan þátt í að byggja rafíþróttaumhverfi heimsins.“

„Við eigum nú þegar í góðu samstarfi við aðildarfélögin okkar og allt það frábæra fólk sem þar vinnur að því að byggja gott umhverfi fyrir rafíþróttafólk landsins, samstarf sem er einstakt á heimsvísu og okkur hlakkar til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.”

Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambands Íslands og einn helsti talsmaður rafíþrótta hér á landi, teku í svipaðan streng.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir rafíþróttir. Þetta er gríðarstórt skref fyrir rafíþróttir á heimsvísu og mikil viðurkenning fyrir það starf sem hefur verið unnið hér á landi, en frá upphafi hefur það alltaf verið markmið RÍSÍ að nálgast rafíþróttir á sömu forsendum og íþróttir, í gegnum skipulagt starf og með heilbrigði og hamingju í fyrirrúmi.“

Ekki í fyrsta sinn sem rafíþróttir tengjast Ólympíuhreyfingunni

Rafíþróttir hafa vaxið hratt á síðustu 15 árum og reglulega hefur verið rætt um að þær verði hluti af Ólympíuleikunum, en mörgum þótt það ansi langsótt pæling. Það dró þó til tíðinda fyrst árið 2021 í tengslum við leikana í Tokyo en það ár fóru fyrstu viðburðirnir tengdir rafíþróttum fram undir merkjunum Olympic Virtual Series og keppt var í ýmsum greinum, m.a. hermikappakstri og sýndarsiglingum.

Tveimur árum seinna var komið að öðrum viðburði Ólympíusambandsins í rafíþróttum, en sá viðburður bar nafnið Olympic Esports Series. Þar var aftur keppt í bæði hermikappakstri og sýndarsiglingum en einnig stafrænum hjólreiðum í gegnum forritið Zwift. 

Þá mátti einnig finna keppnir í hefðbundnari rafíþróttaleikjum eins og hinum geysivinsæla leik Fortnite, en sérstök braut sem reyndi á færni leikmanna var búin til fyrir viðburðinn. Loks voru haldnir sýningaleikir (e. exhibition matches) í fleiri þekktum rafíþróttum líkt og Rocket League og Street Fighter 6.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×